Ægir gjörsigraði Sindra á heimavelli

aegir01Í gær tóku heimamenn í Ægi á móti Sindra frá Höfn í nýliðaslag 2. deildar í knattspyrnu. Loksins vannst sigur á heimavelli en Ægismenn höfðu ekki unnið heimaleik síðan 1. júní, þegar liðið vann Hamar 1-0  á Hafnardögum. Það var því kærkomin markaveisla á boðstólnum á Þorlákshafnarvelli í gær.

Það má með sanni segja að leikurinn hafi aldrei verið í hættu fyrir heimamenn, en staðan eftir fyrri hálfleik var 4-0. Seinni hálfleikur var frekar þægilegur fyrir Ægismenn sem bættu þó við einu marki og staðan því orðin 5-0. Sindri náði aðeins að klóra í bakkann og skoruðu eitt mark þegar um tuttugu mínútur lifðu leiks.

Leikurinn endaði því 5-1 fyrir Ægi og með sigrinum lyftist liðið upp í níunda sæti deildarinnar, þremur stigum fyrir aftan Sindra sem er í því áttunda.