Glæsilegur sigur Ægismanna

aegir_sindri01
Ægir gerði góða ferð austur á Hornafjörð. Mynd / aegirfc.is

Meistaraflokkur Ægis gerði sér góða ferð austur þegar liðið sigraði Sindra, 2-1, á Hornafirði í gær í 2. deildinni í fótbolta.

Það var sannkölluð hátíðarstemning og blíðskapar veður á Hornafirði og Humarhátíðin í fullum gangi þegar leikur Ægis og Sindra stóð yfir. Ægismenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og gáfu Sindramönnum ekki mörg færi á sér. Á 36. mínútu komust Ægismenn yfir þegar Þorkell sendi boltan fyrir á Ágúst Frey sem var réttur maður á réttum stað og skilaði boltanum í netið.

Eftir einungis tveggja mínútna leik í seinni hálfleik jöfnuðu Sindramenn leikinn úr hornspyrnu eftir klaufagang í vörn Ægis. Darko Matejic kom inná þegar 30 mínútur lifðu leiksins og við það jókst krafturinn í sóknarleik Ægis. Þorkell, sem átti mjög góðan leik í gær, tók gott hlaup upp kantinn á 75. mínútu og gaf góða sendingu inn í teig á Aco sem kom Ægismönnum aftur yfir, 2-1.

Vörn Ægis var sterk það sem eftir lifði leiks og Sindramenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn en án árangurs og Ægismenn fóru upp í rútu með stigin 3 í farteskinu.

Lið Ægis situr nú í 7. sæti deildarinnar með jafn mörg stig og Sindri og Huginn sem eru í 5. og 6. sæti. Næsti leikur Ægis er fimmtudaginn 3. júlí þegar Reynir S. mætir í heimsókn á Þorlákshafnarvöll.