Lagning jarðstrengs milli Þorlákshafnar og Selfoss gengur vel

Mynd: Pietro Valocchi
Óseyrartangi. Mynd: Pietro Valocchi

Þessa dagana er verið leggja 28 kílómetra langa jarðstrengstengingu á milli Þorlákshafnar og Selfoss en tengingin er kölluð Selfosslína þrjú. Henni er ætlað að auka afhendingaröryggi raforku í Þorlákshöfn, Hveragerði og á Selfossi. Frá þessu er greint í Sunnlenska fréttablaðinu.

Fyrirtækið Ingileifur Jónsson sér um lagningu strengsins og notar fyrirtækið sérstakan plóg í verkið sem er eini sinnar tegundar á Íslandi. Plógurinn kemur að góðum notum á söndunum í Ölfusi og í gegnum Eyrarbakka og hefur sparað fyrirtækinu mikla vinnu.

„Við setjum fjóra strengi niður með plógnum, þrjá rafstrengi og einn ljósleiðarastreng en allir strengirnir fara á tæplega tveggja metra dýpi,“ segir Jón Örn Ingileifsson, verkstjóri fyrirtækissins í samtali við Sunnlenska fréttablaðið.

Í nóvember næstkomandi er gert ráð fyrir að strengurinn verði spennusettur.