Undirskriftasöfnun hafin gegn endurnýjun á starfsleyfi fyrir fiskþurrkun

lýsiFyrr í dag birtum við frétt þar sem kom fram að Lýsi væri að sækja um endurnýjun á starfsleyfi fyrir fiskþurrkun á núverandi stað, en starfsleyfi þeirra rennur út 6. júní nk.

Búið er að stofna undirskriftasöfnun á netinu þar sem skorað er á Heilbrigðiseftirlit Suðurlands að endurnýja ekki starfsleyfi fyrirtækisins. Grétar Ingi Erlendsson og Rúnar Gunnarsson eru þeir sem standa fyrir undirskriftasöfnuninni.

„Ég keypti mér nýlega hús hér í Þorlákshöfn aftur eftir að hafa flutt úr þorpinu í nokkur ár. Ein af ástæðunum fyrir því að ég var að koma aftur er loforð Lýsis og forseta bæjarstjórnar um að verksmiðjan væri að flytjast út fyrir bæinn“ sagði Rúnar í samtali við Hafnarfréttir.

Þeir félagar ákváðu því að stofna rafrænan undirskriftalista og á vefsíðunni þar sem nálgast má listann eru eftirfarandi texti:

Nú hefur Lýsi sótt um endurnýjun á starfsleyfi fyrir fiskþurrkun sína í Þorlákshöfn. Eins og allir bæjarbúar vita gefur slík verkun frá sér gríðarlega lyktarmengun sem er algerlega óásættanleg! Við undirrituð höfum fengið nóg af þeirri lyktarmengun og skorum hér með á Heilbrigðiseftirlit Suðurlands að endurnýja ekki leyfið og tryggja þannig að bæjarbúar í Þorlákshöfn geti andað að sér ómenguðu lofti um ókomna tíð.

Undirskriftasöfnunin fór af stað eftir hádegi í dag og því ekki margir búnir að skrifa undir en hér er hægt að skoða listann og skrifa undir. 

Hafnarfréttir munu að sjálfsögðu fylgjast með framvindu mála og flytja ykkur fréttir.