Ásberg Lárenzínusson hlaut menningarverðlaun Ölfuss

hafnardagar2016-50Menningarverðlaun Ölfuss árið 2016 voru veitt í Skrúðgarðinum sl. föstudag og að þessu sinni hlaut Ásberg Lárenzínusson verðlaunin.

Ágústa Ragnarsdóttir, formaður markaðs- og menningarnefndar Ölfuss, sá um að tilkynna og afhenda verðlaunin og kom hún inn á að þetta hefði ekki verið erfitt val. Þegar búið var að fara yfir innsendar tillögur og rökstuðning þá var nokkuð ljóst hver myndi hljóta verðlaunin þar sem hans nafn kom langoftast fyrir og voru það tilnefningar frá mörgum kynslóðum með góðum rökstuðningi.

Ásberg er vel af þessum verðlaunum kominn enda hefur hann auðgað menningarlíf sveitarfélagsins um áratugaskeið. „Hann hefur komið að sem hugmyndasmiður og frumkvöðull í ýmsu menningartengdu, hann hefur tekið beinan þátt bæði sem hljóðfæraleikari og söngvari og hann hefur verið virkur menningarneytandi, sem sagt hina fullkomna menningarþrenna“ sagði Ágústa við afhendingu verðlaunanna.

Ásberg barðist fyrir stofnun tónlistarskólans á sínum tíma en skólinn er grundvöllur og einskonar slagæð fyrir hið öfluga menningarlíf sem einkennir Þorlákshöfn. Að auki var hann einn aðalhvatamaður að stofnun Lúðrasveitar Þorlákshafnar, safnaði hann fyrir hljóðfærum og sá til þess að kennari var ráðinn. Til viðbótar spilaði hann að sjálfsögðu sjálfur í sveitinni til margra ára og er heiðursfélagi sveitarinnar.

Ásberg sem er 81 árs í ár er fastagestur á alla menningarviðburði í sveitarfélaginu. Hann er þó ekki einungis menningarneytandi heldur syngur hann í þremur kórum, Söngfélagi Þorlákshafnar, Kirkjukórnum og að sjálfsögðu Tónum og Trix.

Við hjá Hafnarfréttum óskum Ásbergi innilega til hamingju með verðlaunin sem hann hefur svo sannarlega unnið fyrir og þökkum við honum fyrir hans starf í þágu menningarlífs í sveitarfélaginu seinustu áratugina.