Fannst meðvitundalítill í Raufarhólshelli

raufarholshellir-lavaMikill viðbúnaður var hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg fyrir hádegi í dag þegar tilkynning barst um meðvitundalítinn og illa áttaðan mann í Raufarhólshelli í Ölfusi. Björgunarsveitir voru kallaður út, bæði af Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu ásamt fjarskiptahópi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Kona sem var að skoða hellinn gekk fram á manninn og kallaði eftir hjálp. Svo virðist sem manninum hafi orðið fótaskortur í hellinum og hafi við það fengið höfuðhögg og vankast. Það tók björgunarsveitarfólk um hálfa klukkustund að búa um manninn og bera hann út út hellinum og í sjúkrabíl sem flutti hinn slasaða á sjúkrahús til aðhlynningar á slysadeild Landspítalans.

Slysavarnafélagið Landsbjörg vill að þessu tilefni árétta að varhugavert er fyrir fólk að fara einsamalt í hellaskoðunarferðir. Mikilvægt er að nota nauðsynlegan öryggisbúnað og láta vita um ferðir sínar.