Tómstundir verndandi gegn áhrifum heimilisofbeldis

hildur-thoraÉg var í námi í uppeldis- og menntunarfræði og þegar kom að því að velja viðfangsefni í lokaverkefni til BA gráðu valdi ég að skrifa um hvernig tómstundur geta stutt við börn/ungmenni sem búa við heimilisofbeldi. Mér finnst þörf á umræðu um þetta málefni því heimilisofbeldi er alltof algengt og því miður bitnar það oft á börnunum líka og getur tekið mikið á sálarlíf þessa litlu einstaklinga. Foreldrar virðast gera sér litla grein fyrir því hvað börn eru í raun næm á það sem gerist á heimilinu. Með því að velja þetta viðfangsefni vildi ég koma á framfæri mikilvægi tómstunda fyrir börn í þessum aðstæðum og auðvitað börn og ungmenni almennt. Það er svo mikilvægt að öll börn og ungmenni fái tækifæri til að stunda skipulagðar tómstundir. Það hefur sýnt sig og sannað að þær geta skipt sköpum fyrir börn sem einmitt búa við heimilis
ofbeldi.

Heimilisofbeldi er því miður algengt vandamál og er ekki nýtt fyrirbæri, en í dag er það meira í umræðunni en áður fyrr. Ofbeldið hefur gríðarleg áhrif á alla sem fyrir því verða, hvort sem það eru konur, karlar eða börn. Því miður eru iðulega börn í spilinu þegar svona mál koma upp og eru afleiðingarnar fyrir þau mjög slæmar.

Foreldrar hugsa eflaust allir að þeir ætli ekki að láta neitt slæmt koma fyrir börnin sín og í flestum tilvikum ætlar auðvitað ekkert foreldri vísvitandi að stofna barni sínu í hættu. Það er mjög algengt að foreldrar haldi að börnin viti ekkert um það sem gerist á heimilinu þar sem ofbeldið á sér stað. En því miður er staðreyndin sú að börnin vita miklu meira heldur en foreldrar gera sér grein fyrir eða telja sér trú um, en svo er þeim virkilega brugðið þegar þau komast að því hvað barnið veit í raun mikið um þá sorglegu atburði sem hafa átt sér stað á heimilinu. Lítil börn geta jafnvel munað eftir þessum atburðum löngu eftir að þeir áttu sér stað.

Ofbeldið eykur áhættuna á lakari félagsfærni og fjölda hegðunarvandamála hjá börnum. Það getur líka leitt til þess að eðlilegur þroski heila barnsins breytist. Þá hafa rannsóknir einnig sýnt fram á að þau börn sem verða vitni að heimilisofbeldi glími frekar við sálræn vandamál og einnig getur það hægt á tilfinningalegum þroska þeirra og leitt til þunglyndis og kvíða.

Heimilisofbeldi er yfirleitt vel falið fjölskylduleyndarmál og jafnvel börnin sjálf inni á heimilinu virðast meðvitandi þaga yfir því. Oft á tíðum eru þau bara hrædd um að segja frá og þora jafnvel ekki að segja foreldrum sínum frá því sem þeim liggur á hjarta. Jafnvel eru aðstæður þannig að börnin líta á ofbeldið sem hluta af daglegu lífi, án þess að gera sér grein fyrir því að þetta sé óásættanlegt ástand sem enginn ætti að lifa við. Þá eru aðstæður orðnar svo slæmar að þau halda bara að þetta sé eðlilegt og sé bara dagleg rútína fjölskyldunnar.

Börn sem upplifa þessa sorglegu atburði eru því miður líklegri til þess að lenda í erfiðleikum. Börnin eins og fullorðnir eru mis sterk og því miður eru einstaklingar sem koma illa út úr svona aðstæðum og geta átt erfitt til framtíðar og farið út af beinu brautinni. En þau börn sem ná að vegna vel í lífinu þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður eru kölluð þrautseig eða búa yfir seiglu. Með hjálp seiglunnar kemst barnið í gegnum erfiðleikana og með hjálp verndandi þátta í kringum það.

Dæmi um verndandi þátt eru skipulagðar tómstundir. Fyrir utan skóla eru tómstundir taldar vera þær félagsstofnanir sem eru næst daglegu lífi barna. Þær eru auðvitað frábærar fyrir alla og þá sérstaklega þau börn sem búa við heimilisofbeldi og einnig eru þær taldar ýta undir seiglu m.a og hafa mikið forvarnargildi. Þau börn sem stunda tómstundir eru einnig ólíklegri til að neyta tóbaks, áfengi og annarra vímuefna. Ef börnum gefst tækifæri á að stunda skipulagðar tómstundir eru þau strax komin með svokallaðan „öruggan stað“ í burtu frá ástandinu heima fyrir. Tómstundir hjálpa til við að halda börnunum frá neikvæðum hlutum, að koma í veg fyrir að þau fari útaf beinu leiðinni og leiðist út í neikvæða hegðun. Lækkuð tíðni þunglyndis má einnig rekja til þátttöku í tómstundastarfi. Þær hafa áhrif á virkni, heilsu, lífsgæði og líkamlega og tilfinningalega líðan hjá börnunum. Iðkunin veitir þeim tækifæri á því að njóta, slaka á og tækifæri á útiveru. Einnig geta þær byggt upp sjálfsöryggi og sjálfsálit barnsins og geta hjálpað til að byggja upp einstaklinginn eftir erfiðleikana sem hann hefur gengið í gegnum. Börnin geta líka myndað vináttutengsl við aðra og fá stuðning frá leiðbeinanda og bara fundist þau tilheyra hópi sem skiptir þau máli.

Ég lærði gríðarlega mikið við skrifin og það sem kom mér á óvart er að hér á Íslandi erum við langt á eftir í þessum málum miðað við erlendis. Það var ekki fyrr en árið 2009 sem að barnaverndarnefndir byrjuðu að skrá sérstaklega niður tilkynningar sem vörðuðu heimilisofbeldi. Einnig hafa fáar rannsóknir verið gerðar á umfangi eða tíðni þess hér á landi. Í íslenskum lögum er í raun ekki að finna sér refsilög eða refsilagaákvæði um heimilisofbeldi eða ofbeldi gegn konum.

Ég tel mikilvægt og kannski væri ráð að reyna að gera foreldrum betur grein fyrir því hvað börnin eru næm og hvað þau í raun vita mikið um það sem gerist á milli foreldra þeirra og inni á heimilinu. Jafnframt er mikilvægt að koma á framfæri hvað skipulagðar tómstundir geta verið góðar fyrir börn sem búa við þessar aðstæður. Það er hlutverk okkar í samfélaginu að tryggja það að málefnið sé rætt og upplýsa börn að það sé í lagi að ræða hugsanir sínar og tilfinningar. Börn virðast ómeðvitað vilja halda vitneskju um ofbeldi leyndu og þora ekki að tjá sig sem gerir hlutina miklu verri en þeir þurfa að vera. Ég tel að það sé nauðsynlegt að fræða bæði foreldra og börn meira um afleiðingar heimilisofbeldis og þær aðgerðir sem hægt er að grípa til þegar slíkt kemur upp.

Verkefnið má nálgast í heild sinni á Skemmunni.