Glöggt er gests augað – og í Ölfusi er margt fagurt að sjá

Sem nýbúi í Þorlákshöfn og Ölfusi hef ég kannski aðeins aðra upplifun af sveitarfélaginu okkar en margir sem hafa búið hér í lengri tíma, eða jafnvel alla sína ævi. Mig langar að segja aðeins frá því hvernig sú upplifun á Ölfusi hefur verið hingað til, og draga fram alla þá fjölmörgu kosti sem sveitarfélagið hefur upp á bjóða.

Sumarið 2015 bjuggum við hjónin í Noregi, nánar tiltekið rétt hjá Gardermoen flugvellinum, með eitt barn í 1. bekk, eitt á leikskóla og eitt á leiðinni. Við vorum farin að hugsa okkur til hreyfingar og flestir sem hafa búið erlendis í lengri eða skemmri tíma þekkja það að hugurinn sækir oft heim. Eftir miklar rökræður og pælingar var tekin ákvörðun um að flytja til Íslands sumarið 2016. En þá var spurningin; hvert? Fljótlega komu í ljós nokkur skilyrði: Suðvesturhornið, ekki lengra en klukkutíma frá stærri bæ eða borg, og gjarnan í þorpi. Við gerðum því hring í kringum Reykjavík og fórum að bera saman kosti og galla allra sveitarfélaganna á Suðvesturhorninu. Á heildina litið kom Ölfus, og þá Þorlákshöfn út sem besti kosturinn.

Hér var góður skóli og leikskóli. Hér var öll helsta þjónusta á staðnum, svo sem heilsugæsla, apótek, verslun, söluskáli, veitingastaðir og að sjálfsögðu bókasafn. Eiginmaðurinn vill fá að skjóta því inn að hér sé meira að segja vínbúð, og þá er sko menning. Einnig verður að draga fram okkar stórglæsilegu íþróttamannvirki, sundlaugina, íþróttahúsið, gervigrasvöllinn, golfvöllinn, frjálsíþróttavöll og svona má lengi telja. Undirrituð skoðaði svo öll félagasamtökin í Ölfusi og sá að hér var nóg um að vera, bæði fyrir þessa sem finnst gaman að syngja og hina sem finnst betra að hlaupa með bolta.

Í desember 2015, í Íslandsdvöl okkar, ákváðum við því að koma í heimsókn til Þorlákshafnar og skella okkur í sund og kanna aðstæður. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Þvílíkt viðmót sem við mættum uppí íþróttahúsi af bæði starfsmönnum og gestum sundlaugarinnar. Við gátum að sjálfsögðu ekki stillt okkur um að spyrja um aðstæður og ekki stóð á svörum. Eftir þessa heimsókn var ekki aftur snúið. Ölfusingar skyldum við verða.

Eftir að við svo flytjum hingað árið 2016 höfum við ekki upplifað neitt annað en æðislegt viðmót og verulegan náungakærleik. Eins og fleirum er kunnugt um festum við kaup á einu af eldri húsum bæjarins, og íbúar, bæði ungir sem aldnir, hafa verið duglegir  að stoppa og spjalla á stéttinni, segja okkur sögur af húsinu eða fyrrum íbúum og bjóða okkur velkomin í þorpið. Viðhöfum eignast vini og kunningja hérna í bænum og öll þjónusta er til fyrirmyndar hjá sveitarfélaginu. Sem dæmi má nefna að börnin okkar hafa fengið allan þann stuðning og aðstoð sem þarf bæði í skólanum og leikskólanum, og eru virkilega farin að blómstra.

Allir okkar vinir, bæði erlendir og Íslendingar hafa orð á því hvað þetta virðist vera ofboðslega góður staður að búa og hvað það ríki góður andi í bæjarfélaginu. Það er þetta samfélag sem mig langar að taka þátt í að gera enn betra og tók því ákvörðun um að bjóða fram krafta mína í þágu XO Ölfus fyrir komandi sveitarstjórnakosningar.

Í lokin, stutt ,,anekdóta” um Höfnina.
Á leiðinni um Þrengslaveg, rétt áður en komið er að Raufarhólshelli er smá hóll á hægri hönd, og þegar komið er fram hjá honum breiðir Þorlákshöfn úr sér í öllu sínu veldi og á heiðríkum dögum sést alla leið til Vestmannaeyja. Þessi hóll heitir á mínu heimili Heimahóll, enda líður okkur alltaf þannig þegar þetta fagra útsýni blasir við – að við séum komin heim.

Hildur M H Jónsdóttir, skipar 10. sæti á lista Framfarasinna og félagshyggjufólks í Ölfusi, XO