Þakkir frá Gautaborgarförum

Átta krakkar úr Frjálsíþróttadeild Þórs eru nú komnir heim úr frábærri ferð á Gautaborgarleika. Þar tóku þau þátt í frjálsíþróttakeppni ásamt nokkur þúsund keppendum frá tíu þjóðlöndum á Ullevi, glæsilegum leikvangi í miðborg Gautaborgar. Keppnin fór í alla staði vel fram og bættu Þórsarar árangur sinn í mörgum greinum og sýndu fyrirmyndarframkomu jafnt utan vallar sem innan.

Hópurinn frá Þór var í samfloti við 50 keppendur af HSK svæðinu og var góður andi í hópnum þar sem allir fengu stuðning og hvatningu frá liðsfélögum úr HSK. Þá var fjögurra manna þjálfarateymi og u.þ.b. 20 manna foreldrahópur alltaf til staðar fyrir keppendur.

Fyrir hönd keppenda Þórs langar mig að þakka bæjarbúum, fyrirtækjum og forsvarsmönnum Sveitarfélagsins Ölfuss fyrir stuðninginn. Afreks- og styrktarsjóður veitti rausnarlegan styrk til verkefnisins, ásamt nokkrum fyrirtækjum og er það ómetanlegt að finna þann velvilja sem hér ríkir í garð íþrótta- og æskulýðsstarfs. Þá hafa bæjarbúar verið duglegir að kaupa egg og gefa dósir þegar bankað hefur verið upp á.

Kærar þakkir fyrir okkur.
Sigþrúður Harðardóttir formaður og foreldri í Frjálsíþróttadeild Þórs