Ótrúlegur fjórði leikhluti skóp sigur Þórs gegn Íslandsmeisturum KR

Þórsarar unnu ótrúlegan sigur á Íslandsmeisturum KR í Icelandic Glacial höllinni í kvöld. Lokatölur urðu 95-88 Þórsurum í vil.

Leikurinn var jafn fyrstu tíu mínúturnar en gestirnir í KR áttu mjög góðan 2. leikhluta og leiddu 37-54 í hálfleik.

Þórsarar gerðu hvað þeir gátu til að saxa niður forskot gestanna í 3. leikhluta en alltaf svöruðu KR-ingar körfum Þórsara og leiddu þeir með 19 stigum fyrir loka fjórðunginn.

Útlitið var alls ekki bjart fyrir heimamenn en græna Þórs-hjartað gefst aldrei upp og varð þvílíkur viðsnúningur á leiknum í 4. leikhluta. Þórsarar söxuðu niður 19 stiga forskot Íslandsmeistaranna jafnt og þétt og á sama tíma gekk ekkert hjá KR-ingum.

Þegar 7 mínútur lifðu leiks skoruðu KR-ingar þriggja stiga körfu og staðan 73-88 KR í vil. Fleiri urðu stig KR ekki í leiknum á meðan Þórsarar skoruðu jafnt og þétt sem varð til þess að þeir unnu að lokum magnaðan 7 stiga sigur.

Kinu Rochford var frábær í liði Þórs í kvöld og skoraði hann 30 stig og tók 12 fráköst. Nikolas Tomsick var ekki síðri með 26 stig og gaf hann 12 stoðsendingar. Jaka Brodnik skoraði 18 stig og Halldór Garðar skoraði 14 stig en hann var frábær í seinni hálfeik. Þá setti Davíð Arnar 5 stig og Ragnar Örn 2.