Rásarhúsið til sölu á 93 milljónir en var selt á 33 fyrir 2 árum

„Rásarhúsið“ við Selvogsbraut 4 er komið á sölu og er það auglýst á 93 milljónir króna.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Finnbogi Gylfason, fjármála- og rekstrarstjóri hjá ION samstæðunni, keyptu húsið af Sveitarfélaginu Ölfus fyrir tveimur árum og borguðu fyrir það 33 milljónir króna. Sveitarfélagið keypti húsið í byrjun árs 2016.

Í dag er húsið auglýst 60 milljónum króna dýrara en þeir félagarnir keyptu það á í febrúar 2017. Það gerir hækkun upp á rúmlega 180%.

Á fasteignavef Vísis segir að búið sé að endurnýja húsið að miklu leyti og þar með hluti hússins sem Hendur í höfn er með á leigu.

„Nýtt gler og gluggar að hluta, nýjar innkeyrsludyr og nýtt þak og rennur.

– segir í fasteignaauglýsingunni.

Mjög miklum fjármunum hefur verið varið í endurbæturnar á húsnæðinu og eins og allir vita þá hefur Hendur í höfn gert frábæra hluti fyrir bæjarfélagið undanfarin ár og trekkt að stóran hluta þeirra gesta sem til Þorlákshafnar koma, hvort sem það eru ferðamenn eða Íslendingar.

Mikil umræða var á sínum tíma um sölu sveitarfélagsins á húsnæðinu og ekki voru allir sáttir með fyrirkomulagið á sölunni. Upphæðin átti að vera greidd með verðtryggðu veðskuldabréfi til 5 ára með 25 ára endurgreiðsluferli sem bæri 5% vexti. Sveitarfélagið Ölfus veitti kaupanda greiðslufrest í sex mánuði frá undirritun samningsins og að þeim tíma loknum ætti kaupandi að greiða mánaðarlega af veðskuldabréfinu með jöfnum greiðslum. Fresturinn var síðan lengdur í 12 mánuði.

Málið var ekki samþykkt samhljóða í bæjarstjórn og voru til að mynda Guðmundur Oddgeirsson og Ármann Einarsson á móti því að sveitarfélagið væri að koma að fjármögnun kaupanna með þessu hætti og töldu eðlilegast að kaupandi myndi fjármagna kaupin sjálfur að fullu.