Jónas Sigurðsson leikur allar plöturnar sínar á fernum tónleikum á Borgarfirði eystra

Jónas Sigurðsson ætlar að halda tónleikaröð í Fjarðarborg á Borgarfirði eystra kringum tónlistarhátíðina Bræðsluna þar sem hann og hljómsveit munu flytja allar fjórar plöturnar sínar á fjórum kvöldum.

„Mig hefur lengi langað að taka utan um plöturnar mínar sem ég hef gefið út hingað til og líta aðeins yfir farin veg,“ segir Jónas á Facebook síðu sinni um verkefnið.

„Í ár myndaðist svo loksins frábært tækifæri þar sem við Milda hjarta bandið erum að spila á Bræðslunni 2019. Við gripum því gæsina og höfum í samráði við ,,Já Sæll ehf meistarana” í Fjarðarborg stillt upp tónleikaröð frá 21. júlí til og með 24. júlí. Sem sagt, sunnudag, mánudag, þriðjudag og miðvikudag fyrir Bræðsluna.“

Á hverjum tónleikum mun hljómsveitin taka fyrir ákveðna plötu, segja sögur og rifja upp góðar minningar tengdar lögunum. Hljómsveitina skipa sem fyrr: Ómar Guðjónsson, Arnar Gíslason, Guðni Finnsson og Tómas Jónsson. „Líklega munu fleiri gestir koma við sögu enda stemningin í Fjarðarborg þannig að allt getur gerst þegar hitnar í kolunum.“

„Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessari tónleikaröð og allir í bandinu fullir eftirvæntingar. Það er einhver einstakur galdur sem verður til með endurteknu tónleikahaldi sem stendur yfir nokkra daga í röð. Hvað þá þegar slíkt fer framá sólbjörtum sumarkvöldum í Fjarðarborg.“ Segir Jónas að lokum um þessa mjög svo spennandi tónleikaröð í Fjarðarborg.

Dagskráin:
Sunnudagur 21. júlí: Þar sem malbikið svífur mun ég dansa
Mánudagur 22. júlí: Allt er eitthvað
Þriðjudagur 23. júlí: Þar sem himin ber við haf
Miðvikudagur 24. júli: Milda hjartað

Hægt er að kaupa miða á alla tónleikana á sérstöku „early bird“ tilboði sem eru 9.000 krónur en aðeins 50 miðar eru á því verði. Eftir það kostar 10.000 krónur á alla tónleikaröðina og aðgangsmiði á staka tónleika kostar 3.500 krónur. Hægt er að versla miða með því að smella hér.