Blómlegt tónlistarlíf í Þorlákshöfn – vetrarstarf að hefjast!

Það er sennilega öllum löngu ljóst sem þekkja til Þorlákshafnar að þar er blómlegt menningarlíf og þátttaka íbúa í ýmiskonar tónlistarhópum örugglega með því mesta sem gerist, miðað við höfðatölu að minnsta kosti. Það gæti að einhverju leiti útskýrt alla þá hamingju sem er að finna hér í Ölfusinu, enda margsannað að tónlistariðkun hverskonar auðgar andann og eykur vellíðan fólks eins og taugasérfræðingurinn Alan Harvey segir frá í þessum skemmtilega Ted fyrirlestri hér fyrir neðan.

Nú er vetrarstarf að hefjast í öllum tónlistarhópum sem starfa í Þorlákshöfn. Á þeim tímapunkti er tilvalið fyrir nýja iðkendur að mæta og byrja að syngja eða spila með einhverjum af þessum skemmtilegu hópum og í ár eru nýbúar í Ölfusi sérstaklega hvattir til að vera með, enda mjög góð leið til að kynnast fólki og taka þátt í samfélaginu. Hér fylgir stutt kynning á þeim tónlistarhópum sem starfa yfir vetrartímann.

Kyrjukórinn

Kyrjukórinn samanstendur af hressum konum sem hittast vikulega til að syngja undir stjórn hinnar stórskemmtilegu Sigurbjargar Hvanndal Magnúsdóttur. Þær syngja fyrst og fremst skemmtileg lög og æfa á þriðjudagskvöldum kl. 19.30 í Þorlákskirkju og hefjast æfingar þriðjudaginn 10. september.

Lúðrasveit Þorlákhafnar

Lúðrasveit Þorlákshafnar hefur starfað óslitið síðan árið 1984 og er því 35 ára á þessu ári. Lúðrasveitin æfir á fimmtudagskvöldum kl. 20 í Grunnskólanum í Þorlákshöfn og hefjast æfingar fimmtudaginn 12. sept. Lúðrasveitin er þekkt fyrir öflugt starf og sagan segir líka, bestu partýin. Æskilegt er að nýjir þátttakendur hafi einhverja reynslu af hljóðfæraleik og best er að setja sig í samband í gegnum facebook síðu Lúðrasveitarinnar. Stjórnandi er Snorri Heimisson.

Kór Þorlákskirkju

Kór Þorlákskirkju er ómissandi hluti af tilverunni í Þorlákshöfn enda sér hann alfarið um kórsöng við kirkjulegar athafnir í Þorlákskirkju. Auk þess að syngja lög sem tilheyra þeim athöfnum er lagavalið bæði fjölbreytt og skemmtilegt. Kór Þorlákskirkju er blandaður kór og þau æfa á mánudögum kl. 19.30-21.30 í kirkjunni. Æfingar hefjast 16. september og eru allir velkomnir.

Tónar og trix

Tónar og trix, tónlistarhópur eldriborgara er nú að hefja sitt 12. starfsár. Markmiðið með starfi Tóna og trix er að hittast til að syngja, hafa gaman og einstaka sinnum skella sér örlítið út fyrir þægindaramman með óhefðbundum tónleikum, hljóðfæraspili eða öðru sem stjórnanda hópsins, Ásu Berglindi, kann að detta í hug. Hér syngja allir með sínu nefi. Æfingar verða í Grunnskólanum í Þorlákshöfn á miðvikudögum kl. 16.30-18 og hefjast 18.september.

Söngfélag Þorlákshafnar

Söngfélag Þorlákshafnar er aldursforseti allra tónlistarhópa í Þorlákshöfn en það var stofnað 19. október árið 1960. Söngfélagið er blandaður kór og hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir blómlegt félagslíf. Það hafa margir merkir menn og konur stjórnað Söngfélaginu, meðal annars Karl heitinn Sighvatsson en núverandi stjórnandi er Örlygur Benediktsson.
Söngfélagið æfir á þriðjudögum í Grunnskólanum í Þorlákshöfn og er fyrsta æfing 24. september. Áhugasamir nýliðar eru hvattir til að mæta og er þeim bent á að hafa samband við Örlyg í síma 8623503 eða með því að senda póst á orben@tonar.is