Aðventan hefst með krafti í Þorlákshöfn

Það er eftirtektavert hversu þétt viðurðardagatalið er sem kom út nú á dögunum og sést þar enn og aftur hve öflugt grasrótarmenningarstarfið er hér í Þorlákshöfn.

Upptaktur að aðventu

Það mun engum leiðast fyrstu helgina í aðventu sem hefst með jólabingói eldri borgara í kvöld, fimmtudaginn 28. nóvember á 9unni þar sem fjörið heldur svo áfram á morgun þegar árleg hangikjötsveisla verður þar í hádeginu.

Lúðrasveit Þorlákshafnar hefur aldrei verið stærri

Laugardaginn 30. nóvember kl. 15 verður Lúðrasveit Þorlákshafnar í aðalhlutverki þegar hún heldur sína allra stærstu jólatónleika fyrr og síðar. Íþróttahúsinu verður breytt í ævintýralegt jólaland og verður lúðrasveitin í sínu allra fínasta pússi, enda hátíðleikinn í fyrirrúmi í bland við létta og skemmtilega stemningu. Með þeim koma fram Guðrún Gunnarsdóttir og Jógvan Hansen sem jafnframt verða í hlutverki kynna á tónleikunum. Miðasalan gengur vel en Þorlákhafnarbúar og nærsveitungar eru hvattir til að styðja við þetta metnaðarfulla verkefni með því að kaupa miða og láta sjá sig.

Lúðrasveitin býður svo öllum í alvöru lúðrasveitapartý frá kl. 23 á Hendur í höfn þar sem frítt verður inn og og allir (20+) velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Fyrsti sunnudagur í aðventu

Á fyrsta sunnudegi í aðventu verður hefðbundin aðventustund í Þorlákskirkju kl. 16 þar sem kórar og tónlistarfólk úr Þorlákshöfn koma fram, ungir og aldnir.

Seinna sama dag, eða kl. 18 verður kveikt á ljósunum á jólatrénu þar sem kórar Grunnskólans í Þorlákshöfn syngja nokkur lög, Lúðrasveit Þorlákshafnar spilar og svo er aldrei að vita nema jólasveinarnir kíki á svæðið og dansi kringum jólatréð með börnum og fullorðnum.

Og aðventustemningin heldur áfram

Strax daginn eftir, mánudaginn 2. desember verður jólakvöld í Þorlákshöfn en það er skemmtileg hefð sem Kompan hefur leitt síðustu ár þar sem fyrirtæki og aðrir aðilar í bænum hafa opið fram á kvöld. Búast má við markaðsstemningu og lifandi tónlist víða um bæinn. Þar má nefna markað á Kompunni og í Kiwanis húsinu, pizzahlaðborð á Meitlinum, Argh! heimagallerí verður með opið hús sem og VISS. Á Hendur í höfn munu ungt og efnilegt tónlistarfólk koma fram, systkinin Auður Magnea og Jakob Sigurðarbörn og vinkonurnar Sigríður Júlía og Emilía Hugrún ásamt því að rithöfundar lesa úr bókum sínum.

Þriðjudaginn 3. desember stendur Foreldrafélag Grunnskólans í Þorlákshöfn fyrir Jólagleði á milli 17-19 þar sem allir eru velkomnir. Þar verður föndrað, sungið og dansað í kringum jólatré auk þess sem 10. bekkur verður með kaffihús. Íbúar eru sérstaklega hvattir til að koma í skólann, fá sér vöfflu og upplifa stemninguna hvort sem þeir eigi börn í skólanum eða ekki. Um kvöldið, kl. 20 syngur Söngfélag Þorlákshafnar svo jólalög á 9 unni.

Þegar þarna er komið eru enn 20 dagar eftir fram að jólum og nóg eftir í aðventudagskránni í Þorlákshöfn, en við hvetjum ykkur til að kynna ykkur hana og vera dugleg að mæta og nýta ykkur upplifun í heimabyggð.