Umfangsmiklar mótvægisaðgerðir gegn efnahagslegum áhrifum COVID-19

COVID-19 faraldurinn hefur leikið heimsbyggðina grátt. Ógnin er allt um lykjandi og lífshættuleg. Áhrif faraldursins mun vara í langan tíma og ljóst að víða er mótvægisaðgerða þörf hvað varðar viðnám við kólnun hagkerfisins. Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að staðan í Ölfusi sé rétt eins og annarstaðar.  Allra leiða verði leitað til að milda höggið fyrir heimili og fyrirtæki. „Bæjarstjórn er alveg skýr hvað varðar þessi mál. Hér munum við ekki láta hjá líða án aðgerða. Sveitarfélaginu verður beitt til að draga úr áhrifum bæði til lengri og skemmri tíma.“  

Dagleg þjónusta varin
Íbúar sveitarfélagsins hafa ekki farið varhluta af viðbrögðum til að draga úr smithættu. Sundlauginni hefur verið lokað, æfingar liggja niðri, heimsóknir á Níuna hafa verið takmarkaðar, grunnskólinn starfar með mjög breyttu sniði og áfram má telja. Elliði segir að sveitarfélagið hafi í einu og öllu fylgt tilmælum heilbrigðisyfirvalda og nú sé svo komið að engin af stofnun sveitarfélagsins starfi á þann máta sem þær gera öllu jöfnu. „Starfsmenn okkar hafa unnið kraftaverk í að viðhalda þjónustustiginu í fordæmalausum aðstæðum. Fyrir það þökkum við. Auðvitað truflar þetta allan gang í samfélaginu en það eru gríðarlegir hagsmunir fyrir okkur að hemja útbreiðslu þessarar sýkingar. Við munum því áfram fara þá leið  að veita svo mikla þjónustu sem mögulegt er innan þess ramma sem yfirvöld setja.“

Mótvægisaðgerðir
Elliði segir einnig að sveitarfélagið leggi mikið upp úr því að grípa til aðgerða til að milda samfélagsleg áhrif af ógninni.  „Nú þegar hefur allt verið gert til að draga úr líkum á smiti í tengslum við starfsemi sveitarfélagsins. Næstu skref eru að setja í gang aðgerðir til að draga úr efnahagslegum áhrifum.“

Á seinasta fundi bæjarstjórnar, sem haldinn var í fjarfundi til að draga úr smithættu, ræddi bæjarstjórn þessi mál og hjá bæjarfulltrúum var fullkominn einhugur hvað varðar aðgerðir til að vinna gegn kólnun hagkerfisins.  Tekin var ákvörðun um að grípa strax til fyrstu aðgerða og þróa svo viðbrögðin eftir því hverju fram vindur. Í fyrstu skrefum aðgerða hefur verið tekin áhrif um eftirfarandi:

  • Hafnarframkvæmdir settar í forgang: Þegar hefur verið kallað eftir því að ríkið komi með auknum krafti að hafnarframkvæmdum í Þorlákshöfn sem geri mögulegt að þjónusta allt að 180 metra löng og 34 metra breið skip.  Sýnt hefur verið fram á að slík framkvæmd er ein af þeim allra þjóðhagslega hagkvæmustu framkvæmdum sem hægt er að grípa til.  Á það ekki hvað síst við um ferðaþjónustu enda hafa aðilar þegar sýnt því áhuga að taka upp reglulegar siglingar með vörur og farþega á Bretlandsmarkað sem og meginland Evrópu.
  • Framkvæmdum sveitarfélagsins verður flýtt: Allra leiða verður leitað til að flýta þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru.  Sérstaklega verður horft til að hraða svo sem mögulegt er byggingu íbúða fyrir aldraða, gerð nýs móttöku- og flokkunarsvæðis, gatnagerð, lokaáfanga fimleikahúss, viðbyggingu við leikskóla og ýmislegt fl.
  • Stofnun Þekkingarseturs Ölfus: Í dag eru uppi hugmyndir um stórstígar framkvæmdir á sviði atvinnulífsins í Ölfusi.  Sérstaklega er þar horft til umhverfisvænnar matvælaframleiðslu.  Þessar hugmyndir og framgangur þeirra leggur í senn mikinn þrýsting á innviði og bjargir sveitarfélagsins samhliða því sem þær skapa sterk tækifæri til sóknar á hinum ýmsu sviðum.  Til að bregðast við því og hvetja til framkvæmda verður horft til þess að stofna sjálfseignarstofnun sem þjónustar þessi fyrirtæki sérstaklega og horfir samhliða til nýtingar annarra tækifæra og almennar sóknar atvinnulífsins.
  • Einföldun eftirlitskerfisins: Kallað verður eftir því að ríkið auðveldi framgang mála í gegnum eftirlitsstofnanir sínar svo sem umhverfisstofnun, skipulagsstofnun og fl.  Eðlilegt og sanngjarnt er í ástandi sem nú er að þessum stofnunum verði gefin tiltölulega þröngur rammi til ljúka sinni aðkomu að málum.  Til grundvallar þessu eru milljarða framkvæmdir í umhverfisvænni matvælaframleiðslu sem í alla staði er jákvætt að flýta þegar svo árar sem nú.
  • Stuðningur við fyrirtæki í tímabundnum rekstrarvanda: Skoðað verði með hvaða hætti hægt verður að styðja við bakið á fyrirtækjum í sveitarfélaginu sem verða fyrir tímabundnum afleiðingum af kólnun hagkerfisins vegna COVID faraldursins.  Slíkt þarf að vera með opnum og sanngjörnum hætti og þess gætt að eitt gangi yfir alla.  Í þessu samhengi þarf m.a. að horfa til markaðssóknar í ferðaþjónustu, aukins klasasamstarfs fyrirtækja og að fela hinu nýja Þekkingarsetri aukið hlutverk í stuðningi og rekstrarráðgjöf.
  • Leikskólagjöld felld niður þegar foreldrar velja að hafa börn heima í amk. viku: Leikskólagjöld verða felld niður fyrir foreldra barna  í   leikskólum, frístundaheimilum  og  annarri  dvöl  barna  í  starfi  á  vegum  sveitarfélaga taki  foreldrar ákvörðun um að nýta ekki pláss samfellt í heila viku.
  • Niðurfelling á gjöldum vegna tímabundinna aðstæðna: Þegar tímabundnar aðstæður, svo sem sóttkví eða grunur um smit, valda því að íbúar (foreldrar  o.fl.)  geta  einungis  nýtt  að  hluta  þá  grunnþjónustu  sem  er  í  boði,  nái greiðsluhlutdeild einungis til þeirrar þjónustu sem raunverulega er nýtt.  Þar með falli niður öll gjöld þann tíma sem þjónusta er ekki veitt.
  • Frestun gjalda: Ekki verður sendur út reikningur vegna þjónustu leik- og grunnskóla 1. apríl enda hefur starfsemi raskast mikið á þessum tíma og vegna álags hefur ekki verið unnt að greina kostnaðarþáttöku hvers og eins miðað við nýtta þjónustu.  Kostnaðarþátttaka þennan tíma verður leiðrétt og aðlöguð næst þegar sendur verður út reikningar.
  • Endurskoðun fasteignagjalda: Fasteignagjöld verða innheimt með hefðbundnum hætti en næstu dagar nýttir til að meta með hvaða hætti best verður staðið að endurskoðun á álagningu fasteignagjalda hjá þeim sem verða fyrir mesta efnahagslega áfallinu vegna COVID faraldursins. 

Aðspurður segir Elliði að Sveitarfélagið Ölfus sé vel í stakk búið til að vinna með íbúum og fyrirtækjum í að draga úr áhrifum veirufaldursins.  „Núna skiptir mestu að við förum öll eftir því sem fyrir okkur er lagt af yfirvöldum. Þegar svo kemur að því að koma hjólum af stað á ný njótum við þess að Sveitarfélagið Ölfus hefur sterka stöðu í íslensku samfélagi. Maður finnur sterkt að tiltrú fjárfesta á framtíðartækifæri hér í okkar góða samfélagi er mikil. Íbúar hafa einbeittan vilja til að nýta tækifærin og óhræddir við uppbyggingu og sókn. Á sama tíma stendur rekstur sveitarfélagsins vel, bæjarstjórn starfar þétt og náið saman og starfsmenn eru einbeittir í átt að árangri.  Með slíkt veganesti óttast ég ekki þau mikilu verkefni sem framundan eru“, segir bæjarstjórinn.