Nær öllum lóðum úthlutað í Þorlákshöfn

Nánast öllum lóðum undir íbúðarhúsæði í Þorlákshöfn hefur þegar verið úthlutað og útlit er fyrir að á næstu árum muni skorta lóðir til úthlutunar verði ekki gripið til aðgerða. Frá þessu er greint í fundargerð bæjarráðs Ölfuss.

Í erindi frá tæknisviði sveitarfélagsins segir að „sú aukning sem gert var ráð fyrir í gildandi aðalskipulagi hafi reynst full hógvær enda gríðalegur áhugi á sveitarfélaginu til búsetu. Þar sem aðalskipulagið sé nú að renna sitt skeið séu heimildir þess til útbyggingar um það bil fullnýttar.“

Mikil eftirspurn hefur verið eftir lóðum í Þorlákshöfn og til marks um það þá fjölgaði íbúum Þorlákshafnar um 6 prósent á síðasta ári.

„Tæknisviðið hefur þegar unnið forkönnun á mögulegum samstarfsaðilum hvað hönnun varðar og telur að Jees arkitektar séu best til þess fallnir að taka verkefnið að sér,“ segir í fundargerðinni.

Bæjarráð samþykkir erindið að því leyti sem það fellur undir málefni bæjarráðs, og þar með að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun vegna kostnaðar. Þá vísar bæjarráð erindinu að öðru leyti til faglegrar umfjöllunar í skipulags- og umhverfisnefnd.