Þórsarar komnir í 8-liða úrslit eftir sigur á Selfossi

Þórsarar eru komnir í 8-liða úrslit bikarkeppni karla í körfubolta eftir öruggan sigur gegn 1. deildar liði Selfoss á Selfossi í kvöld. Lokatölur urðu 86-111.

Þórsarar höfðu tögl og halgdir í þessum leik og voru ekki lengi að búa til gott forskot á heimamenn. Úrslitin voru í raun ráðin í þriðja leikhluta en staðan að honum loknum var 57-99 Þórsurum í vil. Heimamenn náðu þó að minnka aðeins muninn í fjórða leikhluta og unnu hann 29-12 en það dugði ekki til og 25 stiga sigur Þórsara staðreind.

Allir leikmenn Þórs spiluðu í kvöld og fengu lykilmenn liðsins góða hvíld í fjórða leikhlutanum. Daniel Mortensen var stigahæstur með 25. Tómas Valur Þrastarson og Glynn Watson skoruðu báðir 17 stig og gaf Watson auk þess 10 stoðsendingar. Ísak Júlíus Perdue og Luciano Nicolas Massarelli skoruðu 12 stig hvor. Ronaldas Rutkauskas skoraði 8 stig og tók 9 fráköst. Davíð Arnar Ágústsson skoraði 7 stig, Ragnar Örn Bragason 6, Emil Karel Einarsson 5 og Sæmundur Þór Guðveigsson setti 2 stig.