Hagur íbúa hafður að leiðarljósi

Íbúalistinn býður fram krafta sína í sveitarstjórnarkosningum nk. laugardag. Við erum nýtt framboð sem er myndað af kraftmiklum og ólíkum einstaklingum sem eiga sameiginlega ástríðu fyrir velferð samborgara sinna. Við höfum ólíkan bakgrunn, reynslu, menntun og þekkingu og bjóðum fram krafta okkar á komandi kjörtímabili til að vinna að málefnum Sveitarfélagsins Ölfuss. Við viljum stunda lýðræðisleg vinnubrögð, gagnsæja stjórnsýslu, samvinnu og leggjum ríka áherslu á að hagur íbúa sé hafður að leiðarljósi í öllum ákvörðunum. Við erum hér fyrir þig.

 Á undanförnum vikum og mánuðum höfum við haldið ýmsa fundi og viðburði, heimsótt fyrirtæki og átt um leið gott samtal við fjölmarga íbúa sveitarfélagsins. Fyrir það viljum við þakka. Alls staðar hefur okkur verið vel tekið og það hefur verið dýrmætt að finna þann góða meðbyr og velvilja sem okkur hefur verið sýndur. Við viljum halda þessu góða samtali áfram fáum við til þess brautargengi og hlökkum til að kynnast öllum þeim fjölmörgu störfum og því fólki sem heldur úti atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu Ölfus auk þess að vera áfram í virkum samskiptum við íbúa.

Íbúalistinn vill bæta kjör fjölskyldna, auka lífsgæði eldra fólks og leggja grunn að fjölbreyttu atvinnulífi. Eftir samtöl við íbúa í sveitarfélaginu voru þessi þrjú meginatriði það sem stóð upp úr.

Aukum öryggi og lífsgæði eldra fólks

Við viljum auka öryggi eldra fólks með stórefldri heimaþjónustu og heimahjúkrun í samstarfi við rétta aðila. Við viljum fylgja eftir vinnu Hollvinafélagsins Hafnar, hefja sólarhringsvöktum strax haustið 2022 fyrir íbúa á Níunni sem einnig nýtist eldra fólki í heimahúsum auk þess að auka aðkomu sveitarfélagsins að félagsstarfi eldri borgara.

Verum skrefinu á undan

 Sveitarfélagið er ört stækkandi og nauðsynlegt að vera skrefinu á undan í uppbyggingu þegar kemur að innviðum og þjónustu. Við viljum efla sérfræðiþjónustu, styðja við framþróun og faglegt starf leik- og grunnskóla, undirbúa næsta áfanga í stækkun grunnskólans, flýta byggingu nýs leikskóla og tileinka deild börnum frá 12 mánaða aldri, gera samning við samtökin ’78 um markvissa fræðslu til barna, ungmenna, starfsfólks og stjórnenda sveitarfélagsins, styðja vel við íþróttafélög og innleiða af krafti Barnvænt sveitarfélag UNICEF.

Öflugt fjölmenningarlíf og menningar- og móttökufulltrúi

Við viljum nýta menninguna betur til að byggja brýr milli ólíkra hópa og búa til blómlegt samfélag sem dafnar á sama tíma og það vex. Við viljum endurráða menningarfulltrúa sem einnig fengi hlutverk móttökufulltrúa, efla starfsemi Bókasafns Ölfuss og gera það ásamt Versölum að menningar- og félagsmiðstöð og standa fyrir reglulegum fjölmenningarviðburðum.

Leggjum grunn að fjölbreyttu atvinnulífi

 Við viljum auka við sókn í atvinnuuppbyggingu með áherslu á breidd í atvinnutækifærum, skipuleggja græna iðngarða, byggja upp ímynd sveitarfélagsins fyrir ferðamennsku til framtíðar, klára að leggja ljósleiðara að öllum lögbýlum, hraða uppbyggingu vatnsveitna í dreifbýli, styðja við nýsköpun. Einnig viljum við huga betur að umhverfismálum t.d. með því að fjallað verði um umhverfismál á forsendum umhverfis í nefndum, setja kraft og skipulag í uppgræðslu Þorláksskóga, ljúka við rafvæðingu hafnarinnar og stefna að kolefnishlutlausu Ölfus árið 2030.

Merktu X við H