HB Grandi hefur fest kaup á 1.600 þorskígildistonnum á 3.950 milljónir af Hafnarnesi VER. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HB-Granda.
„Ríflega helmingur aflaheimildanna er í þorski og er félagið með þessum kaupum að tryggja afla til vinnslu á Vopnafirði án þess að skerða afla til annarra starfstöðva félagsins,“ segir í tilkynningunni.
Að undanförnu hefur verið unnið að lausn á skuldamálum Hafnarnes VER, en við hrunið jukust skuldir þess verulega. Sala aflaheimildanna var nauðsynlegur þáttur til að unnt verði að halda áfram rekstri félagsins, en með breyttum áherslum.
„Með þessum viðskiptum greiðir Hafnarnes VER úr skuldamálum félagsins sem stofnað var til með kaupum á aflaheimildum.“
Þegar fréttastofa RÚV hafði samband við Gunnstein R. Ómarsson, bæjarstjóra, var honum brugðið og hafði hann ekki fengið fregnir af sölunni. „Eigendur Hafnarnes VER höfðu ekki greint bæjarstjórn frá stöðunni. Gunnsteinn sagði að ef rétt reynist þá sé þetta mikið reiðarslag fyrir bæinn. Um sé að ræða stóran vinnustað og með þessu væri nær allur kvótinn horfinn úr bæjarfélaginu. Þá hafði forseti bæjarstjórnar, Sveinn Steinarsson, ekki heldur fengið fregnir um söluna en hann er í útlöndum,“ segir af vefnum RÚV.is.