Kristjana Stefánsdóttir með Tómasi í Þorlákskirkju – Engin hraðpróf

Hljómborðsleikarinn Tómas Jónsson telur niður í jólin með tónleikaröð á aðventunni þar sem hann fær til sín góða gesti sem allt er stórkostlegt tónlistarfólk. Það eru þau Bríet, KK, Kristjana Stefáns og Júníus Meyvant sem koma fram ásamt Tómasi.

Hin ástsæla tónlistarkona, Kristjana Stefánsdóttir kemur fram með Tómasi sunnudaginn 12. desember kl. 16. Kristjana hefur verið leiðandi tónlistarkona í íslenskri jazztónlist um árabil og verðlaunað tónskáld fyrir leiksýningar og söngleiki. Hún hefur hljóðritað bæði í eigin nafni og kemur reglulega fram í útvarpi, sjónvarpi og á tónleikum, bæði hérlendis og erlendis.Þorlákskirkja er hlý og notaleg sem hæfir tilefninu einkar vel, þar sem stemningin verður heimilisleg, svolítið eins og að fá þetta hæfileikaríka fólk heim í stofu.

Kirkjunni er hólfaskipt og þá er engin þörf á hraðprófum, aðeins að mæta með grímuna og jólaskapið.

Síðasti gestur Tómasar er síðan Júníus Meyvant sem lætur ljós sitt skína 19. desember. Miðaverð er 3500 kr. og miðasala er á tix.is.

Tónleikaröðin er styrkt af Uppbyggingasjóði SASS.