Á fundi bæjarráðs í morgun var fjallað um Fjölmiðlaskýrslur Creditinfo fyrir árin 2017 til 2019. Í þessum skýrslum, sem byggðar eru á gögnum frá óháðum aðilum, eru settar fram mælingar um þróun fjölda frétta um sveitarfélagið og það borið saman við fyrri ár. Þá eru þar margskonar aðrar upplýsingar svo sem um skiptingu frétta á milli ljósvakamiðla, prentmiðla og netmiðla. Einnig er svo kallað fréttaskor mælt, tenging við netmiðla frétta og listi yfir vinsælustu fréttir ársins og margt fleira.
Samkvæmt fundargerð bæjarráðs kemur fram í þessum skýrslum að umfjöllun um sveitarfélagið Ölfus hafi vaxið um 230% frá 2017. Þá hefur svokallað „Fréttaskor“ hækkað verulega og farið úr 3 í 3,4. Fréttaskor gefur raunsæja mynd af því hversu mikið vægi fréttin hefur fyrir ímynd sveitarfélagsins. Það segir til um hvort fréttin sé virkilega um sveitarfélagið eða hvort umfjöllunin sé um annað en það og hversu mikla athygli fréttin fær. Bæjarráð vekur jafnframt athygli á því að af þeim sveitarfélögum, fyrirtækjum og stofnunum sem eru mæld eru hefur Ölfus færst upp um 108 sæti eða úr 294 í 186.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri, sagði í samtali við Hafnafréttir að þetta væri sannarlega gleðilegt. „Ég held að þessar tölur sýni svo ekki verði um villst að afl íbúa og jákvætt viðhorf þeirra til síns samfélags sé að vaxa. Í þessu njótum við þess að íbúar hér eru óhræddir við að tjá sig um þau mörgu góðu verkefni sem hér eru. Í þessu samhengi má til dæmis benda á frábæra umfjöllun um málverkasýningu Birgittu Bjarkar, tíða umfjöllun um okkar frábæra körfuboltalið, skemmtileg innslög um Þollóween og margt fleira. Þá erum við einnig að verða vitni að góðum vindi í segl atvinnulífsins svo sem með vexti hafnarinnar, uppgangi fiskeldis og áformum um stórtæka ylrækt“ segir Elliði og bætti við að allt verði þetta til þess setja samfélagið okkar í jákvætt ljós. „Þá má ekki gleyma því að auðvitað er hamingjan skemmtilegt umfjöllunarefni.“