Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid halda í opinbera heimsókn til Ölfuss á morgun, mánudaginn 7. Júní.

Elliði Vignisson bæjarstjóri og Gestur Þór Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar taka á móti forsetahjónunum þar sem heimsóknin hefst í Herdísarvík kl. 10 í fyrramálið. „Því næst verður fiskeldið Laxar sótt heim þar sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Jens Garðar Helgason, kynnir starfsemina auk þess sem Ingólfur Snorrason og Halldór Ólafur Halldórsson segja frá fiskeldisstöðinni Landeldi,“ segir í tilkynningu frá skrifstofu forsetans.

Klukkan 11:40 verða forsetjahjónin viðstödd vorhátíð Grunnskólans. Ólína Þorleifsdóttir, skólastjóri tekur á móti gestum. Ýmis tónlistaratriði og veitingar verða í boði, ásamt því að Guðni Th. Jóhannesson forseti ávarpar viðstadda og færir sveitarfélaginu gjöf.

Eftir hádegi tekur Hjörtur Jónsson hafnarstjóri á móti þeim og kynnir þeim framtíðaráform um stækkun hafnarinnar á hafnarskrifstofunni. Að því loknu halda forsetahjónin að Egilsbraut 9 þar sem dagdvöl eldri borgara er staðsett og kynna sér starfið þar, þiggja kaffi og spjalla við viðstadda.

Forsetahjónin ljúka heimsókn sinni í Hjallakirkju. Formaður sóknarnefndar, Hjörleifur Brynjólfsson, tekur á móti gestunum og segir frá staðnum. Gildandi sóttvarnarreglum verður fylgt þar sem það á við, segir í tilkynningu.