Í dag er fyrsti dagur nýs bæjarfrétta vefmiðils í Þorlákshöfn. Ákveðið var að notast við hið sögulega nafn Hafnarfréttir, en okkur þótti nafnið henta vefsíðunni einkar vel. Fyrir margt löngu síðan var gefið út mánaðarlegt bæjarblað í Þorlákshöfn sem bar sama nafn eins og líklega margir muna eftir. Enn þann dag í dag má sjá gamalt skilti blaðsins fyrir utan ritstjórnarskrifstofu þess á kaupfélags húsinu á Selvogsbrautinni.
Hafnarfrettir.is er ætluð til að þjóna íbúum Þorlákshafnar og nágrennis. Fréttatengdu efni um málefni bæjarins og menningu verður gert hátt undir höfði. Reynt verður eftir fremsta megni að höfða til allra íbúa bæjarins með fjölbreyttu fréttatengdu efni. Markmið síðunnar er að auðvelda íbúum og gestum bæjarins að nálgast þær upplýsingar sem þeir þurfa á að halda sem og að fylgjast með fréttum úr heimabyggð.
Við erum tveir uppaldir Þorlákshafnarbúar sem standa að vefsíðunni en við erum Bjarni Már Valdimarsson og Davíð Þór Guðlaugsson. Okkur fannst vanta vefsíðu sem fjallar um málefni Þorlákshafnar og vonum við að ykkur líki framtakið. Við munum síðan reyna okkar allra besta til að gleðja ykkur og fræða.
Ef þið viljið hafa samband eða senda okkur efni fyrir vefsíðuna þá endilega sendið okkur póst á frettir@hafnarfrettir.is
Með von um gott og ánægjulegt samstarf
Bjarni Már og Davíð Þór