Það er ekki á allra færi að geta miðað og hent bolta ofan í körfu. Þó virðist sem íbúar Pálsbúðarinnar í Þorlákshöfn séu betri í því en aðrir.
Eins og margir muna þá vann Ingvi Þór Þráinsson ársbirgðir af pizzum á dögunum fyrir að hitta miðjuskoti Dominos í leik Þórs og Grindavíkur í 8 liða úrslitunum.
Í gærkvöldi var svo komið að nágranna Ingva og frænku í næsta húsi, Dagrúnu Ingu Jónsdóttur, til að reyna við Dominos skotið á leik Njarðvíkur og Grindavíkur í undanúrslitum Dominos deildar karla. Dagrún gerði sér auðvitað lítið fyrir og setti niður þriggja stiga skot sitt og fékk að launum ársbirgðir af pizzum. Athygli vekur að þau búa á móti hvort öðru í Pálsbúðinni og má því með sanni segja að skotnýtingin sé býsna góð í götunni.
Eins og við sögðum frá í gær þá urðu Þórs stelpurnar Dagrún, Daníela og Jenný íslandsmeistarar í 7. flokki með liði Njarðvíkur og voru þær hylltar fyrir leik Njarðvíkur og Grindavíkur í gærkvöldi.
Hér má sjá þetta glæsilega skot Dagrúnar.