Báturinn Jón á Hofi frá Þorlákshöfn fékk mjög svo sérstakan hlut í veiðarfærin á dögunum þegar báturinn var á veiðum í Jökulsdýpi vestur af landinu.
Landhelgisgæslunni barst tilkynning um hlutinn en um var að ræða breskt tundurdufl með 225 kg sprengjuhleðslu. Þetta kemur fram á heimasíðu Landhelgisgæslunnar.
Skipstjóra var ráðlagt að halda að innsiglingunni við Sandgerði og flutti Hannes Hafstein, björgunarskip Landsbjargar í Sandgerði, sprengjusérfræðinga ásamt kafara frá Landhelgisgæslunni um borð og var duflið gert öruggt til flutnings.
Eftir að lyftibelgjum hafði verið komið fyrir á duflinu var því slakað í sjóinn og síðan dregið á öruggan stað til eyðingar með aðstoð slöngubáts frá köfunarþjónustu Sigurðar frá Sandgerði. Kafari Landhelgisgæslunnar kom svo fyrir sprengjuhleðslu við duflið þar sem því var eytt.
Á meðfylgjandi myndbandi má sjá þegar að sprengjuhleðslunni úr duflinu var eytt.
Sprengjusérfræðingar eyddu tundurdufli sem kom í veiðarfæri from Icelandic Coast Guard/LHG on Vimeo.