Á fundi bæjarstjórnar, sem haldinn var 27. október, var rætt um tillögu um nýja staðsetningu fyrir gámasvæðið. Á því skipulagi sem er í gildi í dag er gert ráð fyrir gámasvæði nyrst á Unubakka. Tillaga er hins vegar um að færa það á lóð vestan við Þjónustumiðstöðina, lóð sem er á gatnamótum Unubakka og Selvogsbrautar.
Skipulags- byggingar- og umhverfisnefnd lagði til við bæjarstjórn að hafin yrði vinna við skipulagsferli við að byggja upp gámasvæðið á nýjum stað og kynna hana fyrir íbúum.
Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að hefja skipulagsvinnu og hluti af því er að kynna hugsanlega nýja staðsetningu fyrir bæjarbúum.
Samkvæmt upplýsingum Hafnarfrétta er gert ráð fyrir því að nýja svæðið verði í líkingu við gámasvæðin á höfuðborgarsvæðinu þar sem horft er til þess að svæðið falli vel inn í umhverfið og sé snyrtilegt. Með nýju staðsetningunni er einnig stefnt að því að auka þjónustu við íbúa.