Á undanförnum vikum hefur orðið nokkur samfélagsumræða um nýlegar ákvarðanir sem teknar hafa verið af bæjarstjórn. Þessar ákvarðanir eru af ólíkum toga en eru allar hugsaðar til þess að styrkja og efla það samfélag sem við búum í. Hér á eftir verður stiklað á stóru um samstarf sveitarfélaga í sorpmálum, flokkun sorps, fasteignarkaup og ásýnd miðbæjar Þorlákshafnar.
Sorpstöð Suðurlands bs.
Sveitarfélagið Ölfus er aðili að Sorpstöð Suðurlands (SOS) sem er byggðasamlag í eigu 13 sveitarfélaga í Árnes- og Rangárvallasýslum. Byggðasamlagið var stofnað árið 1981 og helsta hlutverk þess í gegnum tíðina hefur verið að annast sorpmóttöku og sorpförgun fyrir aðildarsveitarfélög og fyrirtæki á samstarfssvæðinu. Meginmarkmið SOS er stuðla að þróun hagkvæmrar sorphirðu á þann hátt að flokkun og endurvinnsla aukist samfara minna magni úrgangs sem til förgunar fer og að haga starfseminni þannig að hún verði ávallt í sátt við umhverfið.
Síðustu ár hefur SOS verið með samning við SORPU um móttöku alls heimilisúrgangs af svæðinu þar sem engin afsetningarleið er á Suðurlandi. Raunar er það svo að SOS hefur sótt um inngöngu í SORPU og á meðan samningaviðræður hafa farið fram hefur samningurinn verið framlengdur tímabundið. Einn þeirra þátta sem til skoðunar hefur verið í þessum sameiningarviðræðum er hvort mögulegur urðunarstaður finnist á Suðurlandi en horft hefur verið til Ölfuss í því samhengi.
Í aðalskipulagi Ölfuss, sem unnið var á árunum 2010-2012, er að finna svæði fyrir sorpförgun á svokölluðum Nessandi í Neslandi u.þ.b. 9 km. vestan Þorlákshafnar. Um er að ræða 15 ha. svæði sem ætlað var á sínum tíma fyrir móttöku- og flokkunarstöð fyrir úrgang. Þegar svæðið var skipulagt var ætlunin að þar yrði aðstaða til móttöku, umhleðslu og flokkunar á úrgangi og endurvinnsluefnum sem þjónað gæti sveitarfélögum á Suðurlandi. Einnig var gert ráð fyrir urðun á því sem ekki yrði endurnýtt eða flutt burt af svæðinu. Engin skilgreining er á því hvað skyldi flutt burt en eðlilegt er að horfa til þeirra áætlana sem sveitarfélögin hafa sett sér varðandi meðhöndlun úrgangs á næstu árum. Til frekari upplýsingar þá er í Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs gert ráð fyrir því að urðun lífræns og brennanlegs úrgangs verði hætt eigi síðar en 2020. Þessi svæðisáætlun er samstarfsverkefni SORPU, SOS, Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. og Sorpurðunar Vesturlands hf. en þessar stofnanir annast meðhöndlun úrgangs fyrir 34 sveitarfélög og er samanlagður íbúafjöldi starfssvæðisins, sem nær samfellt frá Gilsfjarðarbotni að Markarfljóti, yfir 250 þúsund manns.
Skoðun Nessands með tilliti til úrvinnslu og afsetningar úrgangs
Stjórn SOS hefur undanfarin ár óskað eftir viðræðum við bæjarstjórn Ölfuss um mögulega sorpmeðhöndlun á Nessandi og mögulegt samstarf við SORPU. Bæjarstjórn hefur með formlegum hætti svarað því til að Nessandur úr landi jarðarinnar Ness í Selvogi komi ekki til greina sem urðunarstaður fyrir sorp. Bæjarstjórn hefur hvatt aðildarsveitarfélög SOS til þess að vinna að því sameiginlega að koma á samræmdu fyrirkomulagi við meðhöndlun úrgangs þar sem lögð verði áhersla á flokkun, nýtingu lífræns úrgangs til landbóta og lágmörkun úrgangs til urðunar. Ekki er annað hægt að segja en að þetta sé í samræmi við hlutverk og meginmarkmið SOS og svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs.
Ekki hefur enn verið farið í þá vinnu á SOS svæðinu að samræma fyrirkomulag við meðhöndlun úrgangs en SOS hefur enn til skoðunar þann möguleika að nýta Nessand til úrvinnslu og afsetningar. Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss 26. nóvember 2015 var tekið fyrir sameiginlega beiðni frá SOS og SORPU þess efnis að fá að skoða og greina Nessand varðandi þann möguleika að koma þar upp móttöku á úrgangi með flokkun og vinnslu í huga, urðunarstað með óvirkan úrgang og nýtingu svæðisins fyrir uppgræðslu með jarðvegsbæti í samstarfi við Landgræðsluna. Bæjarstjórn tók jávætt í erindið, að því gefnu að tryggt væri að ekki yrði um skoðun á urðun annarra úrgangstegunda að ræða. Það er alveg ljóst að ekki verður af neinni uppbyggingu í þessa veru á Nessandi nema að farið verði i einu og öllu eftir meginmarkmiðum SOS og svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs. Á Nessandi verður því aldrei urðunarstaður fyrir sorp aðeins möguleg flokkun, afsetning og nýting á jarðefnum og úrvinnsla og nýting á lífrænum úrgangi til uppgræðslu.
Aukin flokkun úrgangs
Sveitarfélagið Ölfus var í fararbroddi sveitarfélaga á Suðurlandi þegar blátunna var upphaflega innleidd í hluta sveitarfélagsins. Í dag eru öll heimili í sveitarfélaginu með blátunnu sem íbúar flokka verðmæti í. Eins og áður hefur komið fram hefur bæjarstjórn Ölfuss hvatt sveitarfélögin á samstarfssvæði SOS til að koma á samræmdu fyrirkomulagi við meðhöndlun úrgangs þar sem lögð verði áhersla á flokkun, nýtingu lífræns úrgangs til landbóta og lágmörkun úrgangs til urðunar. Sú hugmyndfræði sem þarna liggur að baki er að fá heimili, stofnanir og fyrirtæki í lið við flokkun þess úrgangs sem þar fellur til. Langstærstur hluti þess úrgangs sem til fellur er verðmæti sem hægt er að endurnýta eða endurvinna og því má segja að það sé siðferðilega rangt að ganga þannig um verðmætin og landið með því að urða hann. Með aukinni flokkun og nýtingu verðmæta er hægt að draga stórlega úr þörf fyrir svæði til urðunar. Vænta má að fljótlega verði tekin ákvörðun um næstu skref til aukinnar flokkunar og verður íbúum kynnt sú niðurstaða með góðum fyrirvara áður en farið verður í innleiðingu á breyttu kerfi.
Flokkunarstöð í Þorlákshöfn
Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Ölfuss gerir ráð fyrir því að fullkomin flokkunarstöð verði reist í Þorlákshöfn á þessu ári. Núverandi flokkunarstöð, sem í daglegu tali kallast gámasvæði, er við Hafnarskeið og sú aðstaða ófullnægjandi, allt í senn hvað varðar ásýnd, samsetningu þjónustu og kröfur heilbrigðisyfirvalda. Stöðinni er ekki ætluð þessi staðsetning til framtíðar. Á fundi bæjarstjórnar 27. október 2015 var ákveðið að skoða það hvort lóð vestan við Þjónustumiðstöðina, á gatnamótum Unubakka og Selvogsbrautar, hentaði fyrir flokkunarstöð. Augljósir kostir fyrir starfsemina er staðsetning við Þjónustumiðstöð og nálægð þjónustunnar við íbúana. Staðsetningin fyrir starfsemi flokkunarstöðvar er heldur ekki gallalaus og eftir skoðun er ljóst að þessi staðsetning hentar starfseminni ekki og er nýrrar staðsetningar leitað þar sem rúmt skal vera um starfsemina og hún hafi möguleika til að þróast til framtíðar. Íbúum munu verða kynntar þær hugmyndir eða sú hugmynd sem uppi verður áður en nokkur ákvörðun verður tekin um endanlega staðsetningu.
Ásýnd miðbæjar
Í lok síðasta árs bauðst sveitarfélaginu að kaupa fasteignina Selvogsbraut 4 og var einróma samþykkt af bæjarstjórn að ganga til samninga um kaupin. Gengið var frá kaupunum í byrjun þessa árs. Fjárhagsáætlun þessa árs gerir ráð fyrir verulega auknu fjármagni til bættrar ásýndar miðbæjarsvæðis Þorlákshafnar og er ætlunin að gróðursetja tré við Selvogsbraut og bæta ásýnd svæðisins með ýmsum hætti. Kaupin á Selvogsbraut 4 falla mjög vel inn í þessa áætlun um bætta ásýnd enda lóðin stór og húsið áberandi á miðbæjarsvæðinu. Ætlunin er að bæta ásýnd hússins og endurbæta lóðina samhliða plöntun trjáa og gróðurrækt við Selvogsbrautina.
Hugmyndafræðin með kaupunum er ekki sú að bæta í rekstur sveitarfélagsins til framtíðar heldur er það von forsvarsmanna sveitarfélagsins að í húsinu komi til með að þrífast starfsemi sem skapa muni störf og efla samfélagið. Sérstaklega er horft til ferðaþjónustutengdrar starfsemi en möguleikar ferðaþjónustu í Þorlákshöfn og nágrenni eru miklir. Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um framtíðarnýtingu hússins en farið verður yfir allar hugmyndir, tillögur og tilboð á næstu vikum og ákvörðun tekin með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.
Góðar kveðjur,
Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri