Sveitarfélagið Ölfus trónir á toppnum í landsleiknum Allir lesa og er meðallestur á íbúa rúmar 12 klukkustundir. Í öðru sæti er Hveragerðisbær en bæði sveitarfélögin eru aðilar að Bókabæjunum austanfjalls en það er klasi samstarfsaðila sem tengjast bókum, menningu og ferðaþjónustu á svæðinu. Það má velta fyrir sér hvort það samstarf hafi leitt til meiri bókalesturs í þessum sveitarfélögum.
„Nóg er enn eftir af keppninni sem lýkur þann 21. febrúar og ljóst að fyrrum lestrarmeistarar í Vestmannaeyjum verða að gefa í til að hafa roð við Ölfusingum. Enn eru konur yfir 70% lesenda vefsins allirlesa.is en margir telja karlmenn lesa öllu meira af blöðum og tímaritum en bókum og útskýri það kynjahallann í keppninni,“ segir í tilkynningu frá forsvarsmönnum átaksins.
„Lestrarhestar landsins hafa samanlagt lesið 21.000 klukkustundir, sem jafngildir 833 dögum, eða vel yfir tveimur árum! Nánar má kynna sér landsleikinn á vefnum allirlesa.is þar sem einfalt er að skrá sig til leiks og lesa til sigurs.“