U20 landslið Íslands hafnaði í öðru sæti á evrópumóti FIBA í B-deild eftir æsispennandi framlengdan úrslitaleik við Svartfjallaland í kvöld. Lokatölur voru 78-76 og var íslenska liðið grátlega nálægt því að fara með sigur af hólmi. Mótið fór fram í borginni Chalkida á Grikklandi dagana 15.-24. júlí.
Þorlákshöfn á tvo fulltrúa í liði Íslands en með liðinu leikur Halldór Garðar Hermannsson og Baldur Þór Ragnarsson er aðstoðarþjálfari liðsins.
Íslenska liðið mun næst leika í A-deild þar sem efstu þrjú liðin í B-deild fengu sæti í A-deild.
Frábær árangur hjá okkar mönnum en þetta er í fjórða sinn sem íslenskt landslið mun leika í A-deild. Hafnarfréttir óska Halldóri og Baldri til hamingju með árangurinn.