Daníel í 3. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi: „Brýnast að bæta heilbrigðiskerfið okkar“

daniel01
Mynd: VG

Daníel E. Arnarsson skipar þriðja sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Suðurkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar sem fram fara 29. október næstkomandi. Tillaga uppstillinganefndar flokksins var samþykkt á félagsfundi í Selinu á Selfossi í gær.

Hafnarfréttir fengu Þorlákshafnardrenginn til að segja lesendum betur frá sjálfum sér og ástæðum þess að hann fór í framboð.

Ég heiti Daníel Arnarsson og skipa þriðja sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi. Ég er uppalinn í Þorlákshöfn en síðustu ár hef ég átt heimili í Hafnarfirði. Ég stunda nám við Háskóla Íslands á lokaári í félagsfræði. Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á pólitík og byrjaði að starfa með Vinstrihreyfingunni grænu framboði árið 2007, en þá í ungliðahreyfingunni, UVG. Árið 2009 stofnaði ég svo Ung vinstri græn á Suðurlandi og var formaður þeirrar hreyfingar til ársins 2011. Ég sat í stjórn UVG á landsvísu frá árinu 2007-2014, en það ár hóf ég störf hjá hreyfingunni á miðlægri skrifstofu. Ég hef einnig setið í stjórn hreyfingarinnar frá því á síðasta landsfundi sem haldinn var á Selfossi í október 2015. Ég er í sambúð með Hólmari Hólm Guðjónssyni, fornfræðinema.

Hver er ástæða þess að þú farir fram?
Að vinna í pólitík þá þarf ákveðna blöndu af ástríðu, skynsemi og æðruleysi. Ástríðu fyrir þeim baráttumálum sem maður brennur fyrir, æðruleysi til að átta sig á því hverju maður getur breytt og skynsemi til að vita hvernig maður breytir og jafnvel bætir. Ég fer fram til að tala fyrir jöfnuði og mannréttindum, en þau mál eru mín hjartans mál.

Hvaða málefni villt þú leggja áherslu á?
Eins og staðan er í dag þá þurfum við, að mínu mati, að leggja áherslu á jöfnuð, mennta-og heilbrigðiskerfið. Bilið á milli efstu stéttar og lægstu stétta er sífellt að breikka, auðurinn safnast á hendur færri aðila og fátækt eykst. Samfélag sem byggir á jöfnuði er betra samfélag, fyrir okkur öll, en ekki bara þau sem eiga meira en þau þurfa. Það brýnasta sem við þurfum að gera er að bæta heilbrigðiskerfið okkar, bæði landsspítalann sem og heilsugæslur úti á landi. Það er ótækt að á Íslandi þurfi fólk að bíða með að fara til læknis sökum peningaskorts. Við eigum að leitast eftir því að hver einasti einstaklingur sem vill mennta sig geti það án þess að skuldsetja sig og finni nám við hæfi.

Það sem vekur athygli er að Daníel er ekki sá eini úr Ölfusi á framboðslistanum hjá VG í Suðurkjördæmi. Ida Løn er í tólfta sæti og Einar Bergmundur Arnbjörnsson er í því fjórtánda. Fyrsta sæti listans skipar Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur og í öðru sæti er Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, sauðfjárbóndi og sveitarstjórnarfulltrúi í Skaftárhreppi.