Knattspyrnulið Ægis hefur sagt upp samningi sínum við Björgvin Frey Vilhjálmsson þjálfara liðsins. Björgvin var ráðinn fyrir nýafstaðið tímabil til tveggja ára en stjórn Ægis ákvað að segja upp samningnum þar sem árangur liðsins var undir væntingum. Ægir endaði í 7. sæti þriðju deildarinnar. Frá þessu er greint á Facebook síðu Ægis.
„Eftir að hafa fallið niður um deild í fyrra og verið í ströggli í sumar þá hefur það reynst þrautinni þyngri að snúa blaðinu við. Það er markmiðið að einmitt snúa blaðinu við og horfa fram á við og gera okkar allra besta til að koma okkur á rétta braut,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir jafnframt að það hafi ekki verið auðvelt að þjálfa lið Ægis undanfarin ár vegna tíðra breytinga á leikmannahópi liðsins milli tímabila. „Hlutskipti þjálfara okkar hefur því ekki alltaf verið auðvelt og það sama á við um starfið hjá Björgvin síðasta vetur og í sumar.“