Íbúar í Ölfusi og aðrir hagsmunaaðilar skora á Bæjarstjórn Ölfuss, Vegagerðina, fjarskiptafyrirtækin ásamt ríkisstjórn Íslands að bæta öryggi þeirra sem ferðast um Þrengslaveg og Þorlákshafnarveg. Hafa þau hrint af stað undirskriftasöfnun þess efnis og hafa núna, þegar þetta er skrifað, 380 einstaklingar kvittað undir.
Á undirskriftarsíðunni segir að þau telji að viðhaldi og þjónustu við veginn ásamt öðrum fáfarnari vegum í Ölfusi sé verulega ábótavant og með öllu óviðunandi. „Við lýsum yfir þungum áhyggjum af því að með tilkomu fraktflutninga í Þorlákshöfn og stóraukinni umferð hópferðabifreiða með ferðamenn muni stórhættulegu ástandi einungis fara hríðversnandi. Til að gera aðstæður enn hættulegri er á löngum kafla ekkert símasamband sem á ekki að þekkjast árið 2017,“ segir á undirskriftarsíðunni.
Þá er tekið fram að vegurinn sé sá allra hættulegasti í dreifbýli ef litið er til slysa með meiðslum per kílómeter á árunum 2012-2016 samkvæmt slysatölum Umferðarstofu.
Það sem við teljum gera veginn jafn hættulegan og hann er er meðal annars:
- Léleg ending olíumalar sem notuð er sem slitlag.
- Stóraukin umferð ferðamanna, hópferðabifreiða og þungaflutninga.
- Slitlag þolir engan veginn þann umferðarþunga og þungaflutninga sem um hann fer.
- Jaðar slitlags vegarins er ónýtur sem veldur því að ökumenn þurfa að aka „á miðjunni“.
- Holur og slit eru seint og illa löguð sem krefst þess að ökumenn fari oft alveg yfir á öfugan vegarhelming.
- Vegaxlir eru ekki til staðar og ná akreinar út fyrir slitlag. Á flestum stöðum er bratt niður af vegi og því nánast hvergi hægt að koma ökutækjum út fyrir veg þegar þess krefst.
- Vetrarþjónustu vegarins virðist haldið í algjöru lágmarki. Snjór og krap fær að liggja órutt á veginum þar til hnausþykkt slapp eða klaki fær að myndast sem skapar algjörlega óþarfa hættu. Á meðan má oft sjá fjölda bíla hálkuverja og ryðja auða vegi í nágrenninu.
– Við skorum á Bæjarstjórn Ölfuss að þrýsta á þar til bær yfirvöld bæta úr ástandinu.
– Við skorum á fjarskiptafyrirtæki að bæta úr símasambandi á veginum.
– Við skorum á Vegagerðina að ryðja og hálkuverja veginn að eigin frumkvæði.
– Við skorum á ríkisstjórn Íslands að bæta úr fjárskorti Vegagerðarinnar áður en ástand vega verður að óyfirstíganlegu vandamáli.Við krefjumst þess að við og ástvinir okkar ásamt öðru fólki sé ekki í stórhættu á ferðum sínum vegna vandamála sem vel statt samfélag hefur góð tök á að laga.