Orka náttúrunnar hefur reist hlöðu með hraðhleðslu fyrir rafbíla í Þorlákshöfn og er hlaðan staðsett á planinu við Skálann á Óseyrarbraut. Gunnsteinn R. Ómarsson bæjarstjóri í Ölfusi tók hana formlega í notkun í gær og hlóð rafbíl sem sveitarfélagið nýtir í þágu félagsþjónustunnar. Hlöður ON með hraðhleðslum eru orðnar 28 talsins og verður allur hringvegurinn opinn fyrir páska.
Með hlöðunni í Þorlákshöfn opnast nýir möguleikar fyrir bæjarbúa rétt eins og þá sem sækja bæinn heim. Talsvert er um að fólk í bænum sæki vinnu annarsstaðar og auðveldar nýja hlaðan fólki að ferðast með umhverfisvænni og ódýrari hætti. Nokkrar hlöður eru líka í grenndinni; á Selfossi, í Hveragerði, við Hellisheiðarvirkjun og á Minni Borg í Grímsnesi.
„Sveitarfélagið hefur metnað í umhverfismálum og við fögnum þessu framtaki sem auðveldar íbúum að skipta yfir í rafmagn í samgöngum,“ segir Gunnsteinn.
„Við leggjum áherslu á að auðlindir séu nýttar með sjálfbærum hætti. Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar er í sveitarfélaginu Ölfusi og það er ánægjulegt og mikilvægt að nú getum við notið afurða hennar með þessum hætti hér í Þorlákshöfn,“ bætir Gunnsteinn við.