Afgreiðslutími Landsbankans í Þorlákshöfn verður styttur verulega frá og með næsta mánuði og segir bankinn að með þessu sé þjónustan í útibúunum aðlöguð að breyttum aðstæðum í bankaþjónustu.
„Viðskiptavinir kjósa í auknum mæli að nota stafrænar lausnir til að sinna bankaviðskiptum og fara því sjaldnar í útibú en áður,“ segir í tilkynningu frá Landsbankanum en tíu önnur útibú bankans í litlum bæjarfélögum víðs vegar um land lentu einnig í niðurskurðinum.
Núverandi opnunartími Landsbankans í Þorlákshöfn er frá 9-16 virka daga en mun verða frá 12-15 eftir breytingar. Það þýðir 4 klukkustunda stytting á opnunartíma á dag.
„Tækniþróun undanfarinna ára gerir það m.a. að verkum að heimsóknum í útibú hefur fækkað og ýmsir þættir bankastarfsemi krefjast færra starfsfólks en áður,“ segir í tilkynningunni.
Breytingarnar munu koma til framkvæmda á tímabilinu 11.-29. júní og verða nánari upplýsingar birtar í útibúi bankans.