Nú hefur verið opnað fyrir miðasölu á síðustu tónleikana í sumartónleikaröðinni á Hendur í höfn en það eru tónleikar Valdimars Guðmunds og gítarleikarans Arnar Eldjárns sem haldnir verða á Hafnardögum.
Þetta eru jafnframt að verða einu tónleikarnir sem enn er hægt að fá miða á þrátt fyrir að tónleikaröðin sé einungis hálfnuð, en þegar þetta er skrifað eru til 5 miðar á tónleikana miðvikudaginn 1. ágúst. Þá verður það tríóið GÓSS sem stígur á stokk en það skipa þau Sigríður Thorlacius, Sigurður Guðmundsson og bróðir hans Guðmundur Óskar, en hann hefur nú þegar komið við sögu sem bassaleikari í hljómsveit Sölku Sól sem spilaði við mikinn fögnuð viðstaddra fyrr í júlímánuði. Fimmtudaginn 9. ágúst munu Anna Margrét og Rúnar Gunnars skemmta viðstöddum með sínum einstaka húmor og tónlistarhæfileikum, en eins og flestir vita þá er löngu uppselt á þann viðburð.
Á tónleikum Valdimars og Arnar má búast við einlægri og hugljúfri dagskrá sem samanstendur af lögum sem Valdimar hefur sungið með hljómsveit sinni í bland við uppáhaldslög þeirra félaga. Þeir Valdimar og Örn Eldjárn hafa undanfarin ár spilað saman haldið fjölmarga tónleika við hin ýmsu tækifæri og ætla að heimsækja nokkra vel valda staði á landsbyggðinni í ágúst, Hendur í höfn þar á meðal. Þessir tónleikar hefjast kl. 20, en ekki kl. 21 eins og allir aðrir tónleikar í sumartónleikaröðinni til þess að tónleikagestir geti líka notið dagskrárinnar í skrúðgarðinum þetta sama kvöld.
Endilega tryggið ykkur miða sem fyrst á þessa frábæru og jafnframt síðustu tónleika í sumartónleikaröðinni á Hendur í höfn með því að smella hér. Borðapantanir eru á hendurihofn@hendurihofn.is
Viðburður Valdirmars á facebook