Róbert Korchai Angeluson frjálsíþróttamaður úr Þór hefur verið valinn fyrir Íslands hönd til að taka þátt í Norðurlandamóti ungmenna undir 20 ára í Danmörku í ágúst. Mótið fer fram í Hvidovre og etur hann þar kappi við allt fremsta frjálsíþróttafólk á Norðurlöndum í þessum aldursflokki.

Róbert mun taka þátt í spjótkastkeppni mótsins en hann hefur verið mjög vaxandi í þeirri grein að undanförnu og hefur átt góðu gengi að fagna á mótum. Hann sigraði í sínum aldursflokki á fjórum mótum í fyrra og það sem af er þessu ári hefur hann bætt sig um rúmlega þrjá og hálfan metra. Hann komst í úrslit á Ungdomsspelen í Gautaborg í byrjun júlí, endaði í fimmta sæti og kastaði þar 53,88 m, sem er hans lengsta kast til þessa.

Rúnar Hjálmarsson frjálsíþróttaþjálfari Þórs hefur verið þjálfari Róberts frá upphafi og sl. þrjú ár hefur Róbert auk þess stundað nám við frjálsíþróttaakademíu FSu undir stjórn Rúnars og Ólafs Guðmundssonar. Róbert er fæddur árið 1999. Hann byrjaði að æfa frjálsar um 12 ára aldur og hefur verið vaxandi allar götur síðan, náð góðum árangri í greininni og er mjög fjölhæfur frjálsíþróttamaður, þar sem hlaup og stökkgreinar liggja vel fyrir honum ekki síður en kastgreinarnar.

Fyrir hönd frjálsíþróttadeildar Þórs óskum við Róberti góðs gengis á Norðurlandamótinu og hlökkum til að fylgjast með honum á mótinu og í framtíðinni.

Stjórnin.