Elliði Vignisson, nýr bæjarstjóri Ölfuss, mun fá sambærileg laun og Gunnsteinn Ómarsson fráfarandi bæjarstjóri sveitarfélagssins.
Heildarlaun Elliða verður 1.650.000 kr. samanborið við 1.579.000 kr. hjá Gunnsteini. „Hækkun heildarlauna skýrist aðallega af því að húsaleiga í Ölfusi hefur hækkað umtalsvert síðan samið var við fráfarandi bæjarstjóra,“ segir í fundargerð bæjarstjórnar Ölfuss.
Skilyrt er í samningnum að Elliði hafi búsetu í Ölfusi á ráðningartímabilinu en hann fær fastan styrk sem er innifalinn í heildarlaununum til að leigja eða kaupa fasteign í Ölfusi á ráðningatímabilinu. „Húsnæðisstyrkurinn verður aðeins greiddur frá þeim tíma sem húsnæði verður tekið á leigu eða keypt,“ segir í fundargerðinni.
Þá segir jafnframt í fundargerðinni að samningurinn við Elliða er að öðru leyti efnislega eins og við fráfarandi bæjarstjóra.