Það var glaðbeittur hópur sem var kominn út í fjöru klukkan 5:30 sunnudagsmorguninn síðast liðinn. Fyrir hópnum fór Jónas Sigurðsson og með honum í för var kvikmyndateymi og samstarfsfólk. Auk þess var Björgunarsveitin Mannbjörg á staðnum til þess að gæta fyllsta öryggis því aðstæðurnar sem tekið var upp í voru mjög krefjandi, svo ekki sé meira sagt.
Seinna tónlistarmyndbandið var tekið upp út á bjargi fyrir ofan gömlu gryfjuna og þar kom líka margt gott fólk að verkefninu sem átti það sameiginlegt að vera ótrúlega jákvætt og tilbúið að gefa af sér.
Jónas og hans samstarfsfólk vill koma á framfæri hlýjum og góðum þökkum til allra sem gáfu sér tíma til að aðstoða, dansa, fæða og passa upp á allt öryggi, án ykkar hefði þetta í alvöru alls ekki verið hægt!
Tónlistarmyndböndin munu bæði koma út í vetur og eru hluti af nýrri plötu Jónasar sem ber heitið Milda hjartað. Þess má einnig geta að Jónas verður ásamt hljómsveit sinni með tónleika á Hendur í höfn miðvikudaginn 7. nóvember og hefst miðasalan á þann viðburð miðvikudaginn 19. september.