Tónlistarárið á Hendur í höfn er í undirbúningi og innan skamms verður vetrartónleikaröðin kynnt en þar verður mikið um dýrðir. Í dag fáum við smjörþefinn af þeirri röð því tónlistarmaðurinn KK kynnir tónleikaröð sína og þar mun hann einmitt koma við í Þorlákshöfn laugardaginn 30. mars, en hann spilaði ásamt systur sinni fyrir jólin og féll algjörlega fyrir veitingastaðnum Hendur í höfn og þeim góðu tónleikagestum sem þar voru.
Svo nú snýr hann aftur umvafinn föruneyti skipað stórskotaliði íslenskra tónlistarmanna sem eru Eyþór Gunnarsson á hljómborð, Guðmundur Pétursson á allskyns gítara, Kristinn Snær Agnarsson spilar á trommur og síðast en ekki síst sonur KK, Sölvi Kristjánsson á bassa.
Þetta mun vera í fyrsta sinn í langan tíma sem KK fer um landið ásamt hljómsveit en fram að þessu hefur hann oftast verið einn á ferð með gítar og munnhörpu sér til halds og traust. Nú vill hann leyfa bastörðum sínum að hljóma, þ.e.a.s. lögum sem hann hefur ekki verið mikið að taka þegar hann kemur einn fram og njóta sín betur með hljómsveit. Þetta er því einstaklega spennandi viðburður fyrir aðdáendur KK og alla aðra tónlistarunnendur.