Föstudagskvöldið 9. ágúst verður Skrúðgarðurinn í Þorlákshöfn stjörnum prýddur þegar stórtónleikar Hamingjunnar við hafið verða haldnir. 
Eins og Hafnarfréttir sögðu frá fyrr í þessari viku hafa Þorlákshafnarbúar og Ölfusið allt eignast nýja bæjarhátíð, Hamingjuna við hafið, sem byggð er á góðum grunni Hafnardaga. 

Áður var búið að tilkynna um komu sprelligosanna í Baggalút en nú er dagskrá stórtónleikanna gerð opinber í heild sinni og ætlum við hér að kynna hvert atriði fyrir sig. 

No Sleep

Ef Sveitafélagið Ölfus myndi veita verðlaun fyrir björtustu von Ölfusinga á sviði tónlistar, færu þau án efa til hljómsveitarinnar No Sleep þetta árið. Hún er skipuð Þorlákshafnarbúunum Þresti og Jakob, Ölfusingnum Valgarði og Selfyssingnum Gylfa. Þeir hafa allir lært í Tónlistarskóla Árnesinga þar sem hljómsveitin var stofnuð. Fyrr á þessu áru unnu þeir til verðlauna á Nótunni sem er uppskeruhátíð tónlistarskóla á Íslandi og nokkuð víst að þeir eiga framtíðina fyrir sér á sviði tónlistar. 

GDRN

Tónlistarkonan GDRN, eða Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir eins og hún heitir fullu nafni, byrjaði að búa til tónlist árið 2017. Síðan þá hefur vegur hennar í íslenskri tónlistarsenu legið hratt upp á við og er óhætt að segja að hún hafi skarað fram úr á íslensku tónlistarverðlununum fyrr á þessu ári. Þar vann hún til ferna tónlistarverðlaunanna, þar á meðal verðlaun fyrir poppplötu ársins, popplag ársins og söngkona ársins.

Daði Freyr

Það fór varla framhjá nokkrum íslending þegar Daði Freyr átti í einvígi við Svölu Björgvins í Söngvakeppninni árið 2017 eftir að hafa fangað hjarta flestra með skemmtilegri framkomu og frábæru lagi sínu, Hvað með það? 
Síðan þá hefur hann gefið út fjölda laga, komið víða fram og allstaðar heillað viðstadda með kröftugri og skemmtilegri sviðsframkomu. 

Baggalútur ásamt Dísu Jakobs 

Fyrir marga íslendinga koma jólin alls ekki án þess að fara á jólatónleika Baggalúts. Enda sprengja þeir alla skala þegar þeir selja upp u.þ.b. 17 full háskólabíó á hverju ári. Baggalútur gaf út sína fyrstu plötu árið 2005, Pabbi þarf að vinna, en sú innihélt alíslenska köntrítónlist, með hröðu banjóspili, dillandi fiðluleik og ljúfsárum textum. Tveimur árum síðar kom svo platan Aparnir í Eden út og hlaut verðlaunin besta íslenska dægurlagaplatan árið 2007. Þeir hafa haldið áfram á þessum nótum allt til dagsins í dag, gefið út heljarinnar magn af lögum og plötum bæði jóla og ekki-jólatónlist, sem landinn hefur notið þess að hlusta á og dilla sér við. 

Dísa Jakobs

Það má segja að tónlistarkonan Dísa Jakobs sé eini hreinræktaði Stuðmaðurinn á Íslandi en foreldrar hennar eru tónlistarfólkið Ragnhildur Gísladóttir og Jakob Frímann Magnússon. Dísa Jakobs hefur í fjölmörg ár lært og starfað við tónlist en þar til nýlega hefur hún fyrst og fremst verið í Danmörku þar sem hún átti heima. Hún gaf út plötuna Reflections árið 2017 og semur einnig tónlist fyrir kvikmyndir og þætti. 
Dísa Jakobs hefur spilað og sungið með bæði Baggalút og Stuðmönnum síðan hún flutti aftur til Íslands auk þess sem hún hefur haldið nokkra tónleika með sinni eigin hljómsveit. 

Stórtónleikar Hamingjunnar við hafið eru hugsaðir sem viðburður fyrir alla fjölskylduna og öllum að kostnaðarlausu.
Sprell verður einnig með leiktæki á staðnum (ath! aðgangseyrir í leiktæki) sem og pylsuvagninn og partýlkerran.