Nú er slétt vika í að Hamingjan við hafið verði sett í fyrsta sinn. Undanfarna daga og vikur hafa dagkrárliðir verið að birtast á facebook síðu Hamingjunnar en á morgun mun dagskráin birtast í heild sinni.
Sú breyting hefur orðið á dagskránni að Dísa Jakobs sem auglýst var með hljómsveitinni Baggalút á stórtónleikum Hamingjunnar verður því miður fjarverandi en í hennar stað mun leynigestur stíga á stokk með Baggalút.
Það verður spennandi að komast að því hver sá/sú verður!
Stórtónleikarnir verða föstudagskvöldið 9. ágúst og eins og áður hefur komið fram á Hafnarfréttum eru það hljómsveitirnar No Sleep, GDRN, Daði Freyr og Baggalútur sem þar stíga á stokk. Á staðnum verða einnig leiktæki frá Sprell og ilmandi matarvarvagnar.