Í dag, fimmtudaginn 9. janúar kl. 16.30, opnar ný sýning í galleríinu Undir stiganum sem er óvenjuleg fyrir þær sakir að listamaðurinn er einungis 15 ára. Listamaðurinn er Birgitta Björt Rúnarsdóttir, 15 ára nemandi í Grunnskólanum í Þorlákshöfn. Þetta er fyrsta einkasýningin hennar og aðspurð um tilurð sýningarinnar sagði Birgitta
Ég var nú bara á bókasafninu að sækja mér bók þegar hún Árný spyr mig hvort ég væri ekki til í að halda sýningu. Seinna lærði ég svo að það var hún Ágústa Ragnarsdóttir sem bar þá hugmynd undir hana og er ég mjög þakklát henni.
Birgitta segir ekkert sérstakt þema vera í myndunum nema það að hún málar bara það sem henni þykir fallegt. Okkur lék forvitni á að vita hvernig hún hefur þjálfað þessa hæfileika sína
Fyrstu myndirnar mínar gerði ég með hjálp Bob Ross, með því að horfa á kennslumynböndin hans á YouTube en svo fór ég bara að prófa mig áfram og sjá hvað ég get gert.
Hvar sérðu sjálfa þig fyrir þig eftir 10 ár? Stefnir þú á að starfa á sviði myndlistar?
Ég hef enga hugmynd við hvað ég vil starfa í framtíðinni en í augnablikinu er þetta gott áhugamál. Vonandi verð ég ennþá málandi á fullu eftir 10 ár og orðin ennþá betri, mögulega málandi með olíulitum.
Eins og áður sagði opnar sýningin kl. 16.30 í dag, fimmtudaginn 9. janúar. Við hvetjum ykkur til að fjölmenna og sjá myndirnar hennar Birgittu með eigin augum.