Veðurstofa Íslands hefur uppfært veðurspá sína fyrir morgundaginn úr appelsínugulri yfir í rauða viðvörun á Suðurlandi. Viðvörunin gildir frá klukkan 5 í fyrramálið og fram til hádegis.
„Austan rok eða ofsaveður eða jafnvel fárviðri, 28-35 m/s. Búast má við hættulegum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 55 m/s, einkum undir Eyjafjöllum, við Ingólfsfjall og á heiðum. Snjókoma með köflum og mikill skafrenningur líklegur. Miklar samgöngutruflanir og niðurfelling þjónustu líkleg. Sjávarstaða er hækkuð og mikill áhlaðandi og ölduhæð.“ Segir á vef Veðurstofunnar.
Veðurstofan bendir einnig á að hætta verði á foktjóni og ekkert ferðaveður sé á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að ganga frá lausum munum og vera ekki á ferð.
Hér má sjá líklegar lokanir á vegum: http://www.vegagerdin.is/ferdaupplysingar/frekari-upplysingar/nr/25969/
Uppfært kl. 19.00
Allt skólahald í Þorlákshöfn fellur niður á morgun, föstudaginn 14. febrúar, í ljósi þess að Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi með rauðum veðurviðvörunum á Suðurlandi. Þetta á við bæði um grunnskóla og leikskóla.