Sveitarfélagið Ölfus er að stækka hratt en á seinasta ári fjölgaði íbúum um rúmlega 5%. Með fjölgun íbúa eykst krafan um líflegt mannlíf og menningu. Eitt af einkennum Sveitarfélagsins Ölfuss hefur verið öflugt og fjölbreytt menningarlíf og því er grunnurinn sterkur.
Samhliða fjölgun íbúa hefur rekstur sveitarfélagsins styrkst og mikilvægt er að horfa til þess að bættur rekstur nýtist til þess að bæta þjónustu við íbúa. Þá ekki síst að styrkja innviði tengdum menningu og listum.
Hjá sveitarfélaginu ríkir, nú sem endranær, einlægur metnaður og vilji til að tryggja að menning blómstri og dafni samhliða þeirri uppbyggingu sem hér hefur verið. Samtalið við sjálfstætt starfandi listafólk, hugmyndaríka íbúa og öflug menningarfélög hefur verið markvisst á síðustu misserum. Fyrir það ber að þakka.
Í dag var svo enn eitt skref tekið í þeirri viðleitni. Á fundi bæjarráðs nú í morgun var samþykkt að leggja Hljómlistarfélagi Ölfuss og Leikfélagi Ölfuss til styrki sem nýta á í leigu á húsnæði undir starfsemi félaganna. Samningurinn gerir félögunum mögulegt að komast í eigin aðstöðu í miðbæ Þorlákshafnar en fyrir valinu varð Selvogsbraut 4.
Það er einlæg von okkar og trú að þetta skref verði til þess að auka enn á fjölbreytni þeirrar menningar sem hér hefur verið og treysti rekstrargrundvöll þessara góðu félaga.
Til hamingju Hljómlistarfélag Ölfuss og Leikfélag Ölfuss og til hamingju íbúar allir!
Grétar Ingi Erlendsson
formaður bæjarráðs