Betri borg fyrir börn er orðið einhvers konar slagorð Reykjavíkur sem er bæði fallegt og metnaðarfullt. Börn í bæ eiga þó einnig að hafa möguleika á auknum lífsgæðum og þjónustu. Andleg heilsa barna er viðkvæmt en mikilvægt viðfangsefni sem verður að sinna og standa vörð um. Andlegri heilsu ungmenna hefur hrakað mikið síðustu ár, eins og sést á töflunni hér að neðan, sem er mikið áhyggjuefni.

Vísbendingar benda til að covid hafi haft gríðarlegar afleiðingar á andlega heilsu landsmanna og þeirri þörf þarf að mæta. Tölur frá skólaþjónustu Reykjavíkur sýna að beiðnir þar sem tilfinningavandi barna er aðalástæða umsóknar um ráðgjöf hefur aukist um 336% frá 1. janúar 2020 til 1. maí 2021. Við þessu þurfum við að vera viðbúin. Við þurfum að efla forvarnir gegn andlegum kvillum og þurfum að bæta þjónustu við börn og ungmenni sem glíma við slíkan vanda.

Hvað vilja Framfarasinnar gera í þessum málum?

Tekin var úttekt á Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings (SVÁ) núna á vordögum. Úttektaraðilum þótti heillavænlegast að þeir starfsmenn sem sinna skóla- og velferðarmálum í þeim bæjarfélögum sem mynda byggðarsamlagið Árnesþing myndu allir tilheyra og starfa undir skóla- og velferðarþjónustunni. Töldu þeir þessa leið vera líklegust til að skila sveitarfélaginu hagkvæmari þjónustu sem byggir á faglegri breidd og öflugum stuðningi við og milli sérfræðinga. Þar sem sveitarfálagið okkar er lítið og margir þekkja marga eru minni líkur á vanhæfni í málum og hagsmunaárekstrum ef þessi leið er farin.

Úttektaraðilar telja enn fremur að stærri rekstrareiningar séu meira aðlaðandi vinnustaðir fyrir sérfræðimenntað starfsfólk og því auðveldara að manna í stöður sem auglýstar eru. Eins kom fram í úttektinni að hjá SVÁ starfar vel menntað, hæft og áhugasamt starfsfólk en vísbendingar benda til mikils álags vegna undirmönnunar. Til að mæta aukinni ásókn í ráðgjöf og þjónustu skóla- og velferðarþjónustunnar þarf að efla hana. Það þarf að bæta við starfsfólki og fara í þessar stefnumótandi breytingar sem um ræðir hér að ofan. Framfarasinnar telja þetta vera heillaskref í átt að bættri þjónustu við börn og ungmenni og mikilvægt skref í innleiðingu laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna en úttektar aðilar vildu einnig meina það.

Innleiðing farsældarlaganna er afar mikilvægt verkfæri til að vinna að bættri andlegri heilsu barna og ungmenna. Til að innleiðing sem þessi gangi sem best og endi ekki sem falleg orð á blaði teljum við æskilegt að ráðinn verði verkefnastjóri yfir innleiðingu farsældarlaganna. Verkefnastjórinn myndi halda utan um ferlið og sjá til þess að öll skref innleiðingar yrðu tekin á tilsettum tíma.

Bjargið hefur heldur betur sannað gildi sitt með metnaði og faglegri sýn starfsmanna og stjórnendum grunnskólans. Bjargið er námsver fyrir nemendur sem eiga erfitt með að stunda nám sitt alfarið inni í bekk. Þar geta börnin fengið einstaklingsmiðaða kennslu í umhverfi sem hentar þeim. Eins fá mörg þeirra félagsfærniþjálfun sem haldið er vel utan um. Þessa frábæru þjónustu þarf að standa vörð um og efla eftir þörfum.

Hreyfing og almenn tómstundariðkun er mikilvægur þáttur í andlegri heilsu. Við getum státað okkur af mjög öflugri íþróttastarfsemi þar sem dugnaður, metnaður og framtíðarsýn hefur byggt upp góðan íþróttaanda og frábært barna- og ungmennastarf. Eins búum við svo vel að hafa tónlistarskólann innan veggja grunnskólans og fjölbreytt starf þar unnið. Þá er mjög sjaldgæft að börn geti byrjað að stunda íþróttir á 4 ára, þau sótt af þjálfurum og jafnvel skilað aftur. Þetta er þjónusta sem ekki er sjálfsögð, þjónusta sem verður að standa vörð um og vera í stöðugri endurskoðun og þróun. Að okkar mati mætti til að mynda skoða möguleikann á tómstundariðkun í samstarfi við leikfélagið og hljómlistarfélagið og eru nú þegar komnar upp áhugaverðar hugmyndir í samtali við aðila innan þeirra félagasamtaka.

Rannsóknir sýna að fötluð börn og ungmenni sækja sjaldnar í skipulagða íþrótta- og tómstundariðkun. Við teljum vert að fara í saumanna á þessu og kanna hvort staðan sé þessi í okkar bæjarfélagi og hvort það sé eitthvað sem við getum gert til að efla þátttöku fatlaðra barna og ungmenna.

Það má alltaf gera betur á einhverjum sviðum á sama tíma og maður er óendanlega þakklátur fyrir það góða sem til staðar er. Ef þér er andleg heilsa barna og ungmenna hugleikin og treystir okkur til að vinna að heilindum í þeim málaflokki þá hvet ég þig til að setja X við B næstkomandi laugardag.

Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir, hegðunarráðgjafi hjá Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings
4. sæti á lista Framfarasinna í Ölfusi