Á morgun er stór dagur, þá veljum við íbúar okkur stjórnendur til næstu fjögurra ára.

Við frambjóðendur D-listans erum stolt af okkar verkum, bæði á kjörtímabilinu sem er að líða og í kosningabaráttunni. Við höfum lagt áherslu á virðingu fyrir samfélagi okkar og mótframbjóðendum. Við höfum lagt verk okkar í dóm og útskýrt framtíðarsýn okkar.

Við höfum lært gríðarlega mikið á síðustu vikum. Við höfum kynnst hvert öðru og ykkur betur en áður. Við höfum lært margt um sveitarfélagið okkar, verkefni þess og áskoranir. Hópurinn okkar hefur unnið sem einn maður að því að móta framtíðarsýn í samstarfi við bæjarbúa. Allir hafa lagt sitt af mörkum; í stefnumótun, í greinarskrifum, á viðburðum og í samtali við ykkur öll. Oft áður hefur framboð D-listans náð að taka vel höndum saman en í okkar huga er þessi hópur sem stendur að framboðinu nú einstaklega vel samstilltur og tilbúinn að taka saman höndum og vinna af krafti, fái hann til þess umboð kjósenda. Hér eru engin uppfyllingarefni, við leggjumst öll á árarnar.

Við bjóðum ykkur skýran valkost. Áframhaldandi uppbyggingu undir forystu meirihluta D-listans í bæjarstjórn, með sama bæjarstjóra í brúnni. Í okkar huga er það skýrt að hinn kosturinn sem ykkur kjósendum stendur til boða er meirihlutasamstarf B- og H-lista. Í öllum aðdraganda kosninganna hefur mátt greina skýra samstöðu þeirra framboða, bæði leynt og ljóst, í undirbúningi og í greinarskrifum þeirra.
Valið er ykkar, valdið er ykkar og við munum virða ákvörðun ykkar hver sem hún verður.

Ef þið kjósið okkar störf í ykkar þágu, setjið X við D á morgun.