Árlega veitir Sveitarfélagið Ölfus viðurkenningu fyrir fallegan garð eða snyrtilegt fyrirtæki eða býli bæði í þéttbýlinu í Þorlákshöfn sem og upp í Ölfusi.
Í þetta sinn voru tilnefndir til viðurkenningar fyrir fallegar einbýlishúsalóðir tveir garðar í Þorlákshöfn og einn í Ölfusi.
Þeir garðar sem urðu fyrir valinu eru lóðirnar við Lýsuberg 4 og Haukaberg 6 og garðurinn við Gljúfur ll í Ölfusi.
Báðir garðarnir hér í Þorlákshöfn eru gamalgrónir og eigendur hafa unnið að þeim í gegnum tíðina af mikilli natni og áhuga. Þeir eru mjög ólíkir en báðir mjög skemmtilegir og hannaðir af eigendum.
Garðurinn að Haukabergi 6 er byggður upp með fallegum og fjölbreyttum runna- og trjátegundum og þekjandi plöntum og blómum. Framan við húsið er fallegur pallur með eldstæði þar sem fólk getur notið skjóls og sólar. Garðurinn er sannkallaður sælureitur og er í eigu Elínar Bjargar Jónsdóttur.
Garðurinn á Lýsubergi 4 er í eigu Þorgríms Ármanns Þórgrímssonar og Þuríðar Gísladóttur. Garðurinn er með þá sérstöðu að hann er bæði vel hannaður með ræktarlegum gróðri, listmunum sem unnir hafa verið af eigendum auk þess sem þau nýta gamalt dót sem þau hafa komið haganlega fyrir með smekklegum hætti. Garðurinn vekur mikla athygli hjá fólki sem gengur hjá og ekki síst börnum. Margt er að sjá og hlusta á vatnið gutla og gagg í hænum.
Garðurinn sem varð fyrir valinu í dreifbýlinu er í eigu Jóns Hólms Stefánssonar og Rósu Finnsdóttur á Gljúfri ll. Þau hjónin eru miklir ræktendur og áttu fallegan garð við húsið á Gljúfri. En fyrir nokkrum árum byggðu þau sér nýtt hús og eru búin að byggja upp nýjan garð.
Hann er byggður upp með pöllum stéttum og fallegum beðum. Passað hefur verið upp að halda eyðum þannig útsýni yfir Ölfusið okkar fallega fær að njóta sín.