Aðsend grein frá Grétari Inga Erlendssyni formanni bæjarráðs Ölfuss
Við höfum aldrei staðið betur. Fyrir því eru ástæður
Engum dylst að það gengur vel hjá okkur. Um allt má sjá framkvæmdir ýmist við framtíðar heimili eða við fyrirtæki sem tryggja munu íbúum atvinnu og velferð okkar til lengri tíma. Hér hefur velferðin verið sótt á grundvelli verðmætasköpunnar. Staðreyndin er sú að fjárhagsleg staða okkar hefur aldrei verið betri. Það hefur aldrei verið fjárfest meira, aldrei verið meiri atvinnu uppbygging og íbúum hefur aldrei fjölgað hraðar. Af þessu megum við íbúar vera stoltir.
Fjárhagsleg staða okkar hefur aldrei verið betri
Á síðasta fundi Bæjarstjórnar voru ársreikningar fyrir árið 2023 samþykktir. Niðurstaðan sýnir með glöggum hætt að staða sveitarfélagsins Ölfuss hefur aldrei verið sterkari. Rekstrarniðurstaða A og B hluta er jákvæð um 591 milljón króna og skuldahlutfall komið undir 36%. Ekki þarf að leita langt í samanburði við önnur sveitarfélög til að sjá að þessi staða er ekki sjálfgefin. Fjárhagsleg staða er fyrst og fremst afleiðing þeirra ákvarðanna sem hafa verið teknar. Það er því mikilvægt að vel sé haldið um rekstur sveitarfélagsins enda skilar það sér beint til íbúa í formi lægri álagna og fjárfestingum sem snúa að bættum innviðum.
Það hefur aldrei verið fjárfest meira
Nýr meirihluti tók við árið 2018. Síðan þá hefur verið fjárfest fyrir hátt í tvöþúsund milljónir. Á forsendum verðmætasköpunar vitum við að við höfum möguleika á að sækja enn fastar. Fjárfesta meira, auka þjónustu, tryggja enn betur velferð bæjarbúa. Nýr leiksskóli er nú að rísa í svokölluðu Vesturbergi,sem er nýja íbúahverfið vestan við bæinn. Jarðvinnu er lokið og verktakar þegar hafist handa að steypa sökkla. Áætluð verklok eru haustið 2025. Verið er að vinna í útboðsgögnum fyrir nýjar rennibrautir við sundlaug en því verkefni var slegið á frest í fyrra þar sem skilyrði til lántöku voru ekki hagfelld sökum hárra vaxta og verðbólgu. Það er ánægjulegt að verkefnið sé nú farið af stað aftur og en ánægjulegra að hægt sé að fjármagna það án lántöku. Nýtt fjölnota íþróttahús er nú á teikniborðinu sem mun gjörbreyta æfingaaðstöðu íþróttafélaga í sveitarfélaginu. Starfshópur, sem hefur það hlutverk að skoða álitlegar útfærslur, er nú að störfum og skilar vonandi niðurstöðum á sumarmánuðum. Þá er sveitarfélagið að fjárfesta í skóla og leiksskóla í Hveragerði og auðvitað ekki hægt annað að nefna þær miklu framkvæmdir sem eru við höfnina. Enn eru þá ótaldar þær götur sem verið er að leggja sem eru forsendur nýrra heimila, fjárfestingar í fráveitu, undirbúningur að stækkun grunnskólans, undirbúningur vegna fjölgunar íbúða fyrir aldraða, ný útikennslustofa, hjólastígar, útivistarsvæði, nýr miðbær og svo margt annað.
Það hefur aldrei verið jafnmikil atvinnuuppbygging
Stefna meirihlutans í Ölfusi hefur verið sú að sækja fram á forsendum verðmætasköpunar. Sífellt fleiri fyrirtæki sækjast í að staðsetja sig í okkar góða sveitarfélagi. Árið 2018 hafði ekki verið byggt hér iðnaðarhús í langan tíma. Nú er staðan önnur. Á síðustu árum hefur uppbygging atvinnuhúsnæða aldrei verið meiri. Tilkoma nýrra fyrirtækja og vöxtur þeirra sem hér eru fyrir eru okkar trygging fyrir velferð til framtíðar. Blómlegt og sterkt atvinnulíf skilar sveitarfélaginu umtalsverðum tekjum sem myndar grundvöll bættrar þjónustu og velferðar íbúa sveitarfélagsins.
Íbúum hefur aldrei fjölgað meira
Uppbygging í atvinnulífinu hefur leitt af sér mikla og stöðuga íbúafjölgun á undanförnum árum. Íbúafjöldi stendur nú í um 2900 manns og hefur fjölgað um u.þ.b. 6% á ári síðan 2018. Það er frábært að sjá þá miklu trú sem nýjir íbúar hafa á samfélaginu hér og þeim tækifærum sem sveitarfélagið hefur yfir að búa. Við sem höfum verið hér um lengri tíma finnum á eigin skinni hversu gott það er að fá til liðs við okkur nýtt fólk til þátttöku í sókninni.
Ég er nú sem endranær bjartsýnn á komandi tíma og hlakka til að halda áfram að vinna í þágu íbúa, núverandi og verðandi!
Grétar Ingi Erlendsson
Formaður Bæjarráðs Ölfuss