Vegna yfirlýsingar Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra First Water hf, sem birtist í fjölmiðlum í dag telur Heidelberg á Ísland mikilvægt að eftirfarandi komi fram.
Yfirlýsing First Water er mikið undrunarefni og vekur upp spurningar um hvað vaki fyrir forstjóra félagsins með því að fara fram með þessum hætti. Fyrirtækið hefur ekki á nokkru stigi hins mikla undirbúnings verkefnisins sett fram athugasemdir eða óskað eftir upplýsingum um fyrirhugaða verksmiðju eða áhrif hennar á aðra nærliggjandi starfsemi. Slík vinnubrögð geta vart talist annað en furðuleg og ófagmannleg.
Undirbúningur að verksmiðju Heidelberg í Ölfusi hefur staðið yfir lengi í góðu samstarfi við sveitarfélagið og með fullri vitneskju annarra atvinnurekenda á svæðinu. Heidelberg hefur lagt mikla áherslu á góða upplýsingagjöf til allra aðila og fyrirhuguð staðsetning á atvinnusvæðinu vestan Þorlákshafnar hefur legið fyrir frá því í upphafi síðasta árs.
Fyrirhuguð staðsetning verksmiðjunnar við Keflavík var kynnt öðrum fyrirtækjum á því svæði með formlegum hætti áður en lóðarvilyrði var veitt af hálfu sveitarfélagsins og bárust engar athugasemdir við þeirri staðsetningu. Að sama skapi hafa engar athugasemdir þess efnis borist í skipulagsferli verkefnisins til þessa frá First water eða öðrum atvinnurekendum á svæðinu.
Umhverfismatsskýrslu var skilað í október síðastliðnum. Hún var auglýst í lok desember síðastliðinn og var til kynningar í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar í upphafi þessa árs. Málið hefur verið til meðferðar á ýmsum stigum hjá sveitarstjórn Ölfuss en hefur auk þess verið til umfjöllunar á opinberum vettvangi; á auglýstum íbúafundum, á vef Heidelberg og í umfjöllun fjölmiðla.
Skipulagsstofnun hefur skilað af sér áliti þar sem umhverfismatsskýrslan er staðfest og engar sérstakar kvaðir eru settar vegna verkefnisins. Í álitinu segir m.a. ólíklegt sé að frárennsli frá verksmiðjunni muni hafa áhrif á strandsjávarvatnshlot á svæðinu vegna stærðar þeirra en vegna heildarstarfsemi á svæðinu þurfi að horfa til alls álags á svæðið og hvatt til sameiginlegrar vöktunar.
Ekkert í undirbúningi verkefnisins hefur bent til þess að starfsemi verksmiðjunar muni ógna annarri starfsemi, lífríki eða vatnsgæðum á svæðinu, enda er nær eingöngu unnið með móberg sem finna má í miklu mæli í öllu umhverfi svæðisins og svo vatn til skolunar.
Þær áhyggjur sem viðraðar eru í yfirlýsingu First Water eru óljósar, lítt rökstuddar og í engum takti við fyrri samskipti við atvinnurekendur á svæðinu.
Forsvarsmenn First Water hafa ekki á neinu stigi ferlisins lýst áhyggjum eða sett fram athugasemdir vegna verksmiðjunnar þótt mörg tækifæri og nægur tími hafi verið til þess. Því hafnar Heidelberg á Íslandi alfarið yfirlýsingu First Water og gagnrýnir harðlega vinnubrögð þau sem forstjórinn sýnir með henni.
Þróttmikil atvinnuuppbygging stendur fyrir dyrum í Þorlákshöfn sem mun hafa mikil og jákvæð efnahagsleg áhrif á samfélagið þar. Hugur Heidelberg stendur til þess að vera þar öflugur þátttakandi í góðu samstarfi við aðra atvinnurekendur á svæðinu, enda ríkir sameiginlegir hagsmunir fólgnir í blómlegu atvinnulífi sem styrkir alla þjónustu á svæðinu fyrir svo umfangsmikla atvinnustarfsemi.
Þorsteinn Víglundsson
Talsmaður Heidelberg á Íslandi