Fjöldi fólks lagði leið sína í Skrúðgarðinn í dag í lautarferð í góða veðrinu. Gaman var að sjá hvað margir höfðu lagt metnað sinn í að baka og búa til alls konar kræsingar til að njóta í fallega garðinum okkar. Sumir meira að segja tóku með sér staup og freyðivín.

Klukkan 19 var svo farið af stað í gönguferð á vegum Ferðamálafélags Ölfuss. Gengið var um hverfisverndarsvæðið út að vita. Þátttaka var góð en einhverjir höfðu á orði að það mætti hreinsa til í gamla brunninum á hverfisverndarsvæðinu.

Grill og harmónikkuball var svo haldið á Níunni. Kveikja átti í grillinu kl. 18 en eitthvað gekk það brösuglega og kom í ljós að sennilega er þrýstijafnarinn eitthvað orðinn lasinn á annars flottu grilli sem Nían á. Að lokum tókst þó að tendra í grillinu og svo tók við ball þar sem Úlfar Sigmarsson, Hildur Petra, Stefán P Þorbergsson, Sigurgeir Skafti Flosason og Gunnar Jónsson spiluðu fyrir dansi. Myndir frá Harmónikkuballinu eru frá Tedda Owen.

Mikið stuð var svo á pallinum að Skálholtsbraut 11 þar sem haldin var opin hljómsveitaræfing. Þar komu fram Fosteii, Emilía Hugrún, Steini Bjarka, Vignir Snær, Sigurður Einar, Róbert Dan, Jónas Sig, Árni Gaua og leynigestur var Beggi í Sóldögg. Frábær skemmtun og vel mætt í fallega garðinn þeirra Guðlaugar og Róberts Dan. Þegar viðburði lauk lögðu fjölmargir leið sína í Skrúðgarðinn þar sem matarvagninn Fast food græjaði allskonar kræsingar ofan í svanga gesti. Þeir lögðu á sig að keyra beint frá Kópaskeri til að taka þátt í hinni einu sönnu Hamingjunni við hafið í Þorlákshöfn.

Áfram heldur dagskráin og á morgun föstudag er hin árlega litaskrúðganga sem fer af stað frá horni Skálholts- og Reykjabrautar kl. 18:30 með Lúðrasveit Þorlákshafnar í broddi fylkingar. Á Facebooksíðu Hamingjunnar við hafið má sjá kort af leiðinni sem skrúðgangan fer en Lúðrasveitin pikkar upp hverfin á leiðinni og endar svo í Skrúðgarðinum. Kl. 19:30 hefst svo kvöldvaka þar sem fram koma VÆB, Lay Low, Moskvít, Júlí Heiðar og Hr. Eydís. Að kvöldvöku lokinni stígur svo hljómsveitin Sunnan 6 á svið og heldur uppi stuðinu á balli til kl. 2. Hamingjan er svo sannarlega hér og hvergi annars staðar.